Réttur - 01.01.1974, Qupperneq 5
í þeirri kosningabaráttu sem nú er að hefj-
ast um allt landið má gera ráð fyrir miklum
umræðum um sveitarfélögin og stöðu þeirra
í stjórnkerfinu. Umræður þessar verða án efa
verulega markaðar af afstöðu manna til vinstri
stjórnarinnar. Sjálfstæðismenn gera það
að meginefni ræðu sinnar, að vinstri stjórnin
hafi ofsótt sveitarfélögin og eflt miðstjórnar-
vald, sem í tali þeirra nú, flokkast til hins
illa. Þessar staðhæfingar byggja á því einu,
að Alþingi hefur ákveðið að ríkið skuli bera
kostnað af dýrri samfélagslegri þjónustustarf-
semi, sem áður hvíldi á sveitarfélögum, og
þau voru mjög misjafnlega viðbúin að mæta.
Samtök sveitarfélaganna sjálfra höfðu ein-
dregið farið fram á að þessi breyting yrði
gerð á þeim forsendum, að það væri Alþingi
en ekki sveitarfélögin, sem tæki ákvörðun
um hve víðtæka og dýra þjónustu bæri að
veita. Þarna er um að ræða Almannatrygging-
ar og þar með sjúkrakostnað að mestu og
löggæslu. Ennfremur hefur ríkið tekið að sér
stóraukinn hlut í byggingarkostnaði sjúkra-
húsa og annarra heilbrigðisstofnana og einnig
njóta nú elliheimili og dagvistunarheimili
barna framlaga úr ríkissjóði. Enginn þing-
maður Sjálfstæðismanna treysti sér til að vera
á móti þessum ráðstöfunum, en þeir berjast
nú allir sem einn á móti þeim sjálfsögðu
afleiðingum breytinganna, að ríkissjóður þarf
þeirra vegna að taka til sín aukið fé og hlut-
deild sveitarfélaganna í skattheimtu minnkar
að tiltölu.
Þegar þessi áróðursþáttur umræðnanna
hefur verið skilinn frá stendur eftir sá kjarni
málsins, sem full ástæða er að ræða gaurn-
gæfilega. Hver á þáttur þessara frumeininga
stjórnkerfisins að vera og hvers konar milli-
stig er heppilegast að mynda milli sveitar-
félags og ríkis þar sem sýsluskipanin er
greinilega ekki lengur fullnægjandi form.
Sveitarstjórnir hafa að undanförnu verið
að skapa slíkt millistig með landshlutasam-
tökum sveitarfélaga. Þessi samtök geta vafa-
laust þróast upp í að verða eðlilegur þáttur
í stjórnkerfinu. En til þess að svo geti orðið
þar að gefa þeim lýðræðislega uppbyggingu.
Með núverandi fyrirkomulagi eru þau í reynd
samtök meirihlutaaðila í sveitarstjórnum
vegna þess að meirihlutaaðilar ráða vali lang-
flestra þeirra fulltrúa sem sitja fundi sam-
takanna.
Úrslit sveitarstjórnakosninga á hverjum
stað mótast alltaf að nokkru af staðbundnum
viðhorfum, en í meginatriðum ráðast þau þó
alls staðar af mati fólks á hinum pólitísku
flokkum og verkum þeirra. Alþýðubandalag-
ið á að geta vænst verulegs árangurs á grund-
velli starfa sinna síðustu árin, en allur al-
menningur viðurkennir ríkan þátt þess í þeirri
atvinnuuppbyggingu, sem hefur gjörbreytt
lífsafkomu manna og enginn kemst hjá að
viðurkenna alger umskipti til hins betra fyrir
aldraða og öryrkja undir forystu Alþýðu-
bandalagsins í tryggingamálum.
5