Andvari - 01.01.1986, Page 99
ANDVARI
BJARTUR OG SVEITASÆLAN
97
Um heildartúlkun á bókinni má segja það fyrst að sagan hefur að geyma
gagnrýni á hetjuhugtakið, og er hún reyndar að nokkru leyti undanfari
Gerplu í því efni. Sagan af Bjarti er ádeila á einstaklingshyggju, og þá ádeilu
ber að sjá í ljósi þess að hún er engu að síður hetjusaga. Hetjur sögunnar
eru í engu tilfelli hetjur af því að þær fórni sér fyrir almannaheill eins og
títt var í sósíalískum sögum á þessum tíma, heldur verða þær hetjur fyrst
og fremst vegna gilda á borð við þau sem Hallbera aðhyllist, iðni, tryggð við
fjölskyídu og nægjusemi; en slík gildi voru alls ekki efst á blaði hjá vestræn-
um hugsjónamönnum um sósíalisma á þessum tíma. Jákvæðar hetjur sög-
unnar verða ekki heldur hetjur fyrir það að vera einfaldlega sterkar og fær-
ar um að standa einar, sem er það sem gerir Sturlu í Vogum að hetju. Þá má
benda á að sé Nonni hetja, þá er það meðal annars vegna tengsla við gild-
ismat millistéttar, vegna tengsla við listir og menntir.
í annan stað er það auðvitað þýðingarmikið að sagan er þjóðfélagslegt
ádeiluverk, sem varðar tiltekin málefni samtíma þess. Sagan tjáir skoðanir
höfundar á íslenskum landbúnaði og á stöðu kvenna, og þetta hvort tveggja
er forsenda þess reginmunar sem er á Sjálfstœðu fólki og sveitasælusögunum
sem fyrr var rakið.
Á hinn bóginn vil ég að lokum nefna, að ef til vill hefur íslenskum lesend-
um hætt til að ofmeta pólitískan og stundlegan þátt verksins. Nú er sagan
að vísu árás á Framsóknarflokkinn og einstaklingshyggjuna, en þýðing
þess að Bjartur skilur aulann Gvend eftir hjá verkfallsmönnum í sögulok
þarf t. d. ekki að vera mikil. Pólitískt inntak sögunnar er almennt. Hálf
milljón lesenda sögunnar erlendis hefur til dæmis haft lítinn áhuga á smá-
atriðum varðandi Byggingar- og landnámssjóð og þróun verslunarhátta í
íslenskum sveitum — en þeim mun meiri á þeim þáttum mannlífsins í Sjálf-
stœðu fólki sem það gat tengt eigin tilveru. Ef marka má sum skrif um sög-
una erlendis, til dæmis bæklinginn frá ameríska bókaklúbbnum sem seldi
sem mest af bókinni,4) áttu sumir fullt í fangi með að sjá muninn á
Markens gröde og Sjálfstœðu fólki. Mér virðist að lítið sé eftir af stundlegu pól-
itísku inntaki sögunnar ef hún er sett á sama bás og saga Hamsuns. En al-
mennt pólitískt inntak hennar getur verið mikið engu að síður. Þó að
stjórnmáladeilurnar sem lesa má milli lína í Sjálfstœðu fólki séu að nokkru
leyti framandlegar í augum nútímalesanda er varla unnt að benda á þær
sögur íslenskar frá árunum milli stríða sem betur hafi staðist tímans tönn.