Menntamál - 01.06.1955, Page 10
72
MENNTAMÁL
fáfræði, fátæktar og sjúkdóma. — Þessir fulltrúar hafa
haft bitra reynslu af því, að eitthvað annað geti fremur
valdið fjárhagslegum dauða þjóða en almenn uppfræðsla.
Margt var ritað og rætt um menntunarástand þjóðarinn-
ar áður en fræðslulögin voru sett. Einar H. Kvaran segir
í grein í Tímariti Bókmenntafélagsins 1901, að sér sé
kunnugt um þá skoðun sumra merkispresta, að eitthvað
töluvert af kvenfólki verði ólæst að kalla má, þegar það
er komið yfir tvítugt. Og hann segir frá rannsókn, sem
áhugasamur kennari hafi gert á bókaeign í einu skólahér-
aði. Þar kom í ljós, að „á meira en helming heimilanna
kom alls enginn prentaður stafur annað en skyldubækur
barnanna.“ Ekki einu sinni guðsorðabók né almanak og
ekkert blað. Þessar eyður voru í hinni marglofuðu heima-
fræðslu.
Fræðslulögin frá 1907 voru endurskoðuð 1926. Fáar
veigamiklar breytingar voru á þeim gerðar en þær helztar,
að fræðslumálastjórn var heimilað að leyfa eða ákveða
skólaskyldu frá 7 ára aldri og lögákveðinn var styrkur til
byggingar skólahúsa utan kaupstaða. Önnur endurskoðun
fór fram 1936. Var þá lögleidd skólaskylda frá 7 ára
aldri. Áður en vikið er að hinni þriðju endurskoðun, sem
hér er aðallega til umræðu, er nauðsynlegt að rifja upp
nokkur atriði varðandi upphaf og þróun hinnar almennu
framhaldsfræðslu.
Fyrstu gagnfræðaskólarnir voru stofnaðir hér um og
eftir 1880, á Möðruvöllum og Flensborg. Það voru allþung-
ir bóknámsskólar og Möðruvallaskóli varð síðar (eftir
hann fluttist til Akureyrar) öðrum þræði undirbúnings-
skóli undir menntaskólann. Þessa skóla sótti fólk, sem
var yfirleitt vel fallið til bóklegs náms og átti ekki kost
á lengri skólagöngu. Margt þess varð síðar forystufólk í
félagsmálum byggðarlaga sinna, sumt starfaði að verzl-
un eða kennslu, enda var Flensborgarskóli að nokkuru
leyti kennaraskóli.