Menntamál - 01.06.1955, Blaðsíða 13
MENNTAMÁL
75
þeim styttist barnafræðslustigið um eitt ár frá því, sem
áður var, gagnfræðastigið lengdist um eitt ár og mennta-
skólar urðu fjögurra ára skólar. Miðað var við það, að und-
irbúningi undir menntaskóla og sérskóla væri lokið úr 3.
bekk gagnfræðaskóla, en 4. bekkur þessara skóla ætlaður
þeim, sem ekki hugðu á frekara framhaldsnám. — Enn
fremur mæla þessi lög fyrir um 8 vetra fræðsluskyldu.
Það er þrennt, þó einkum tvennt í þessum lögum, sem
veruleg ástæða er að gera að umræðuefni hér. Það er í
fyrsta lagi lenging fræðsluskyldunnar eða skólaskyldunn-
ar. Ég kýs heldur að kalla það skólaskylda, því að í reynd-
inni er að mestu leyti um skólaskyldu að ræða. I öðru lagi
tengslin milli gagnfræðastigs og menntaskóla eða með öðr-
um orðum landspróf miðskóla og þá í þriðja lagi stytting
barnaskólans.
Skólaskyldan var lengd um eitt ár með nýju lögunum.
Henni lyktaði áður á því ári, sem barnið varð fullra 14 ára,
en nú á því ári, sem það verður 15 ára. Þessi lenging var
gerð með ráði mikils þorra skólanefnda og skólastjóra
um land allt. Nú þóttist ég leiða að því nokkur rök hér að
framan, að nútíma-þjóðfélagi sé nauðsyn á því að tryggja
lágmarksfræðslu þegna sinna. En þau rök segja vitaskuld
ekkert til um það, hvað sé hæfilega löng skólaskylda á okk-
ar landi. Ég hef sýnt fram á það, að meginþorri unglinga
sækir almenna skóla jafnvel einum vetri fram yfir það,
sem skólaskylda nær, að minnsta kosti í þéttbýlinu, svo
að ákvæðið um lengingu skólaskyldunnar snertír í raun-
inni ekki nema lítið brot úr einum aldursflokki. Mér þótti
sennilegt, að nemendum í þeim aldursflokki mundi fækka
um það bil um 5—10%, ef það væri aftur úr gildi numið.
Þetta getur því virzt harla lítilsvert ákvæði. Að minnsta
kosti mundu verða mikil vonbrigði þeirra, sem vænta
sér þess, að kostnaður við skólahald mundi lækka til muna
af þeim sökum. Ég leyfi mér að efast um, að þeir yrðu
varir við þá lækkun í sköttum sínum.