Prestafélagsritið - 01.01.1923, Blaðsíða 12
Prestafélagsritið.
Þorvaldur víðförli.
7
V.
Þegar Þorvaidur var orðinn »vel frumvaxti®,1) þ. e. a. s.
kominn á fyrsta þroskaaldur, fór hann utan að ráði Þórdísar
og þá að sjálfsögðu einnig með tilstyrk hennar. Hann heldur
á fund Sveins tjúguskeggs, gerist hans maður og fer í víking
með honum. Hefir þetta verið um 978, því að fyr hefir Sveinn
varla lagst í víking. Hann fékk brátt miklar mætur á Þorvaldi,
því að honum duldist ekki, hvert afbragð hann var annara
manna. Þorvaldi er lýst þannig, að hann væri »ráðagerða-
maður mikill, öllum auðsær að dygð og skynsemd, styrkur að
afli og hugaður vel, vígkænn og snarpur í orustum, mildur
og örlyndur af peningum, og reyndur að fullkomnum trúleik
og lítillætis þjónustu, hugþekkur og ástúðugur öllum liðsmönn-
um«. Gaf Sveinn konungur honum þann vitnisburð, að hann
væri svo vitur sem spökum konungi hæfði að vera, styrkur
og hugdjarfur sem hinn öruggasti berserkur, og svo siðugur
og góðháttaður sem hinn siðugasti spekingur. Herjar Þor-
valdur með honum vestur um haf á Bretland og víðar, og er
mælt, að hann hafi jafnvel eitt sinn bjargað lífi konungs.
A þessum árum hefir Þorvaldur kynst kristinni trú, því að
til þess voru nóg tækifæri. Hefir hún að líkindum fljótt haft
mikil áhrif á hann og þung barátta hafist í sál hans. Bæði
Kristnisaga og þátturinn geta þess, að hann hafi varið hlut-
skifti sínu í hernaðinum til útlausnar herteknum mönnum.
Koma þar fram áhrif kristninnar. Því að slíkt væri lítt hugs-
anlegt um alheiðinn mann, þar sem ein aðalhvötin tii þess
að fara í víking var einmitt sú að afla sér fjár. En þrátt fyrir
þetta lætur Þorvaldur ekki enn af hernaði. Löngun hans í þá
átt má sín meira um hríð, enda hefir hann verið flestum
mönnum betur vígur. Svo kann einnig trygð hans við Svein
konung að hafa haldið honum og vinsældir af félögum hans.
Segir í þættinum, að hann hafi verið með Sveini konungi í
nokkur sumur; en lengur en 2 sumur hefir það þó ekki getað
1) í Flateyjarbók stendur „roskinn".