Prestafélagsritið - 01.01.1923, Blaðsíða 59
Prestafélagsritið.
KRISTNI OG ÞJÓÐLÍF Á ÍSLANDI
í KATÓLSKUM SIÐ.
Eftir dr. theol. Jón Helgason biskup.
I.
Kristnitakan á Islandi er að sumu leyti rétt einstakt fyrir-
brigði í trúboðssögunni. Að þjóð, sem að meiri hlutanum til
er enn heiðin og ærið þekkingarlaus um eðli og einkenni
hins nýja siðar, kristinnar trúar, hlítir úrskurði eins manns —
og það vafalítið heiðins manns — um að þjóðin sem heild
aðhyllist trú lítils minni hluta, en hafni trú feðra sinna, þess
veit eg engin dæmi með nokkurri annari þjóð. Hitt veit eg,
að einstöku þjóðhöfðingjar höfðu áður með valdi neytt heiðnar
þjóðir til að láta skírast. En hér úti á Islandi var ekki um
neina kúgun að ræða. Hvað orðið hefði ef Islendingar hefðu
neitað að hlíta úrskurði Þorgeirs, er ekki gott að segja. En
þeir hlíttu honum ærið mótmælalítið — þeir hlíttu honum sem
hyggilegri ráðstöfun. Eins og komið var högum hinnar fá-
mennu þjóðar, virtist þetta greiðasta leiðin til að skirra þeim
vandræðum, er af því mundu hljótast, að eigi hefðu menn ein
lög í landinu. Menn hræddust, að ryðja mundi til landauðnar,
ef eigi hefðu allir ein lög og einn átrúnað. En hvers vegna
þá að hallast að átrúnaði minni hlutans? Það ber að sjálf-
sögðu ekki vott um lifandi mætur á hinum forna sið, að fylgj-
endur hans, svo að segja orðalaust, létu leiðast til að snúa
við honum baki, enda vitum vér, að margur heiðinn maður
var tekinn að veiklast í trú sinni. Það er alkunna, að hinn
heiðni átrúnaður var hjá mörgum orðinn að aumlegri hjátrú,
að ómengaðri náttúruhluta-dýrkun (fetischisme), og að hins
vegar hnignaði sjálfum trúarhugmyndunum mjög alment. Æsir