Prestafélagsritið - 01.01.1923, Side 78
Prestaféiagsritiö. Kristni og þjóðlíf á íslandi. 73
örlögþrungnu afleiðingum. Er því sízt furða þótt hann einatt
hafi sætt ómildum dómum af síðari kynslóðum fyrir að hafa
kveikt allan þann eld ódygða og hryðjuverka, ægilegra mann-
drápa og morðbrenna og mannúðarleysis á hæsta stigi, og
þetta hafi orðið til þess að skyggja á ýmsa mannkosti þessa
afar einkennilega manns.
Hér skal nú ekki farið frekar út í þann ófagnað allan. En
láandi er engum sem Sturlungu les, þótt hann spyrji: Hvað
veldur? Hvar er súrdeigskraftur kristindómsins? Það má vel
vera, að lifandi og einlægur kristindómur eins og hann kemur
svo fagurlega fram hjá Rafni Sveinbjarnarsyni og hjá Kolbeini
Tumasyni, hjá Gamla kanoka og höfundum annara eins Ijóða
og Sólarljóða og Líknarbrautar, hefði getað heft hina voða-
legu siðspillingu Sturlunga-aldarinnar. En hann var ekki til
í landinu sem þjóðar-eign. Hann er til sem einstaklings-eign
helzt meðal »hinna kyrlátu í landinu«, sem minst láta til sín
taka um stórmálin. En það hrökk ekki til. Um allan þorra
manna, og þar ekki sízt um þá er mestu réðu og mest létu
á sér bera, er það að segja, að »kristindómur« þeirra var
mestur á yfirborðinu, en náði ekki til hjartans, sem var gagn-
tekið af valdafíkn og auðs-eftirsókn og þrasgirni. Því gat þessi
yfirborðs-guðsótti orðið samfara svo miklum óhrjáleik í líferni.
Því gátu menn fótumtroðið hispurslaust einföldustu boð siða-
lögmálsins, jafnframt því sem þeir héldu fast við trúna á kenn-
ingu kirkjunnar. Menn gerðu þegjandi ráð fyrir, að þægja
mætti svo að segja hverja yfirsjón eða brot með tilsvarandi
bótum. Lifandi syndar-viðurkenningar verður sjaldan vart,
enda var svo um hnútana búið, að aflausn prestsins var fáan-
leg án eiginlegrar sundurkramningar hjartans. Kröfur Krists
voru að sjálfsögðu gagnlegar, en að sinna þeim mátti vel
geyma til gamals ára. Trúin var líka mikils virði í sjálfri sér,
en lífið heimtaði sitt. Tíðasókn var fyrir allra hluta sakir
ákjósanleg; hitt skifti minna máli hvort bókstaflega væri lifað
eftir lærdóminum. Það er samkonar kristindómur hjá Hafliða
Mássyni og áður hjá Flosa, þegar hann bar eld að húsum á
Bergþórshvoli. Hafliði samsinnir fyllilega orðum Þorláks