Prestafélagsritið - 01.01.1923, Síða 121
116
Ólafur Ólafsson:
Prestafélagsritið
en ávalt urðu þeir að bíða eftir »fyllingu tímans*, bíða manns-
ins, sem Guð hafði gefið neistann og tendrað gat bálið.
W/illiam Carey hét brautryðjandi nútíma kristniboðs evan-
gelisku kirkjunnar. Árið 1792 hélt hann ræðuna heimsfrægu
í London út af ]es. 54, 2—3. Myndaðist þá elzta kristniboðs-
félag vorra tíma, baptistafélagið enska. Tveimur árum síðar
var kristniboðsfélagið í London stofnað, og sjö árum seinna
kristniboðsfélag biskupa-kirkjunnar ensku. Brezka og erlenda
biblíufélagið var stofnað nokkru síðar — 1804 — og hefir það
stutt fjöldamörg kristniboðsfélög með biblíuútgáfum sínum.
Róbert Morrison, sem einnig var Englendingur, var braut-
ryðjandi Kínatrúboðsins evangeliska; hann er fyrsti fulltrúi
mótmælenda kirkjunnar í Kína.
Róbert Morrison fæddist 1782 í sveitaþorpinu Morepeth á
Norðymbralandi af fátæku foreldri. Snemma varð hann að
fara að vinna fyrir sér; en svo var viljaþrekið mikið og nám-
fýsin óseðjanleg, að þrátt fyrir 12—14 tíma vinnu daglega,
aflaði hann sér bóklegrar þekkingar á kvöldin; var þó heilsan
fremur á völtum fæti.
15 ára gamall snerist hann til lifandi trúar og hét þá að
helga Guði líf sitt. Iðkaði hann nú mjög lestur biblíunnar og
bænina, og varði tómstundum sínum til að safna öðrum
drengjum saman og tala við þá um kristindóm. — Síðar, er
hann stundaði nám í London, gaf hann sparifé sitt alt til
kristniboðsins, og fór þá hugur hans að hneigjast að því, og
bað Guð vísa sér veg; bað hann þess jafnan, að Guð vildi
trúa sér fyrir því starfi, sem erfiðast væri og óframkvæman-
legast innan vébanda kristniboðsins. Og hann fékk bænheyrslu.
— En Guð lætur engan til skammar verða, sem í nafni hans
klífur hamarinn og í öruggri trú velur torfærasta veginn.
Það vakti mikla athygli meðal kristniboðsvina á Englandi,
er fríkirkjupresturinn dr. W. Mosley fann handrit með kín-
veskri áletrun í fornmenjasafninu brezka og í ljós kom, að
það var þýðing á guðspjöllunum og fleiri köflum úr nýja
testamentinu. Til mála kom að biblíufélagið brezka léti prenta
handritið. Það varð þó ekkert af því, þótti of kostnaðarsamt.