Prestafélagsritið - 01.01.1923, Page 152
Prestaíéiagsritið. Píslarsjónleikimir í Oberammergau. 147
ammergaubúar syngja vi5 guðsþjónustur sínar, einkum þó á
föstudaginn langa.
16. atriði: Jesús á Golgata. Nú kemur söngflokkurinn fram
í svörtum klæðum. Það hafði sín áhrif á áheyrendurna. Og
söngur þeirra sorgþrunginn og eitthvað yndislega angurblíður.
Þegar söngflokkurinn var farinn og tjöldin voru dregin frá,
þá blasa ræningjarnir við á krossinum, en í miðið sést krossinn
með ]esú negldum á, liggja á jörðunni. Svo er hann reistur
upp. Mjög hægt. Þung, og næstum kveinandi, stuna líður frá
þúsundunum á áhorfendasviðinu.
Kristur hangir 18 mínútur á krossinum. Þótt reynt sé að
koma krossfestingunni sem bezt fyrir og þjáningaminst, hlýtur
hún þó að kosta mikla líkamlega og sálarlega raun.
Allir horfa á krossinn. Margir eru með tárin í augunum.
Orð ]esú á krossinum heyrast um alt húsið. Aftur líður stuna
frá þúsundunum, er spjótinu er stungið í síðu ]esú. Rétt á
eftir er svo líkaminn tekinn niður af krossinum af vina hönd-
um. Það er yndislega fagurt, en fegurst þó, er líkami hans er
lagður í faðm Maríu. —
Svo kemur greftrunin.
17. atriði: Upprisan. Prologus mælir fram að vanda. Byrjar
með orðunum: Það er fullkomnað. — ]esús kemur fram úr
gröfinni. — Síðar birtist hann Maríu Magdalenu.
Fyrir hina kristnu hugsun getur upprisan varla sýnt til fulln-
ustu endalok þessa fórnardrama, enda er eitt atriði eftir.
18. atriði: Lokaatriði.1) Prologus kveður áheyrendurna. Kór-
inn syngur hallelúja. Sólósöngur.
Þá er sýnd mynd af himnaförinni. Heilagir menn gamla og
nýja testamentisins safnast í kringum drottin, þar sem hann
svífur til hæða, en óvinir hans liggja sigraðir á jörðu niðri.
Svo enda píslarsjónleikirnir með voldugum kórsöng:
»Þér sé lofgjörðin og heiðurinn og dýrðin og krafturinn
um aldir alda. Hallelúja*.
1) Þá fyrst hefir söngflokkurinn farið úr svörtu klæðunum.