Eimreiðin - 01.01.1924, Side 18
14
AÐ L0GBERGI
EIMREIÐIN
Ef til vill hefur fátt átt drýgri þátt í að koma alþingi á
fastan fót en fyrsta tilraunin, sem gerð var til að hrifsa landið
undir erlent ríkisvald. Þegar Haraldur hárfagri sendi Una
hinn danska út hingað til að leggja landið undir sig, fundu
landnámsmennirnir glöggast. hvaðan landnámi þeirra hinu nýja
var skæðust hætta búin. Þessi tilraun Haralds mun þá líka
hafa styrkt samheldnina og flýtt fyrir myndun fastrar, lög-
skipaðrar stjórnar.
A Þingvöllum var það, sem hamingjudísir landsins hvísluðu
hinni heilladrjúgu lausn málanna að Þorgeiri Ljósvetninga-
goða, sem bæði kom í veg fyrir innanlandsstyrjöld, veitti
kristninni völdin í landinu og gerði að engu ætlun Olafs
Tryggvasonar að tryggja sér áhrif með tilstyrk hins nýja siðar,
en sá mun þó hafa verið tilgangur hans hér sem annarstaðar.
A Þingvöllum stóð Einar Þveræingur og flutti snjöllustu land-
varnarræðuna, sem nokkurntíma hefur verið flutt á Islandi, og
bjargaði landinu úr klóm Olafs konungs Haraldssonar. Sú
ræða ætti að vera kend og lærð utan að í öllum barnaskól-
um þessa lands. Hún stendur ekki að baki því fegursta og
viturlegasta, sem sagt hefur verið til varnar frelsi og samheldni.
Saga Sturlungaaldarinnar er saga sundrungarinnar. Tung-
urnar, sem töluðu í eyru landsmanna við hirðir Noregskonunga
og heima í héraði, urðu áhrifameiri en hinar, sem létu orð sín
hljóma yfir Þingvöllum. Út um sveitir landsins fór sundrungar-
andinn hamförum, og útlend, veraldleg og kirkjuleg drotnunar-
stefna smeygði sér inn í íslenskt þjóðlíf. Það var þá líka
heima í héraði eða erlendis, sem landsmenn seldu smám
saman sjálfstæði sitt. Heima í héraði var setið á svikráðum,
heima í héraði voru framin launvíg, heima í héraði eða er-
lendis lofuðu höfðingjar landsins Hákoni gamla að ganga er-
inda hans. Hallvarður gullskór, sendimaður Hákonar, fór að
lokum um landið, lokkaði og ginti, taldi menn á að fylgja fram
hinum erlenda málstað, en hét í móti hlunnindum og konungs
vináttu. Hollustueiðar Islendinga á alþingi 1262—1264 voru ekki
annað en óumflýjanleg formsatriði eftir það, sem á undan var
gengið heima í héraði og við hirð Hákonar konungs gamla.
Og alþingi hélt áfram að starfa á Þingvöllum í meira en fimm
hundruð ár eftir að þjóðin komst undir erlent ríkisvald. Enn