Morgunn - 01.12.1937, Síða 112
238
MORGUNN
með honum gröfina, að bera saman ráð sín, hvar niður
skyldi bera. Varð þá fyrst fyrir þeim legsteinn séra
Gísla Oddsonar frá Miklabæ, Gíslasonar. (Hann dó 77
ára gamall 1855). Kom þeim Þorsteini snöggvast í hug,
að þar væri staðurinn, er Solveig vildi hvíla. En með því
að það stóð ekki heima við draum Þorsteins, féll hann
frá að grafa þar. Annar staður kom líka til mála, sem
fallið var frá af sömu ástæðu. En er Þorsteinn gengur
lengra inn í garðinn, sér hann stað blasa við, sem leit út
nákvæmlega eins og í draumnum. Þar tóku þeir gröfina.
En svo hagar til í Glaumbæ, að kirkjugarðurinn þar
hefir nýlega verið stækkaður alveg á sama hátt og garð-
urinn á Miklabæ hafði verið stækkaður kring um árið
1910: viðaukinn er norður af gamla garðinum. Og þeg-
ar þeir fóru að athuga þetta grafarstæði nánar, sáu þeir
að það hafði í Glaumbæjarkirkjugarði nákvæmlega
sömu afstöðu og gröf Solveigar hafði haft í garðinum á
Miklabæ: gröfin liggur á mótum gamla kirkjugarðsins
og viðaukans, og austan við miðju. Stefán mældi fjar-
lægðina frá austurmörkum garðs að gröfinni, eftir að
þeir voru farnir að taka hana, og síðar samsvarandi fjar-
lægð í garðinum á Miklabæ, og reyndust þær nákvæm-
lega jafn langar. — Það má segja, að þetta sé nú ekki
sérlega merkilegt, en dálítið er það þó skrítið.
Þessir draumar, sem nú hefir verið frá sagt, eru ekki
nema lítill hluti þess, er borizt hefir í drauma manna í
sambandi við Solveigu, og ég þegar hefi heyrt. Væri það
allt til tínt, mundi það nægja í heila ritgerð, varla styttri
en þessi grein mín er.