Viðar - 01.01.1936, Page 153
Viðar]
NÁM
139
um. Sagan og landafræðin eru safn af staðreyndum, sem
enginn efast um, staðreyndum úr fortíð og samtíð, sem
enginn getur án verið, sem vill skapa sér heilbrigða lífs-
skoðun.
Ég er að reyna að kenna ykkur íslenzku. Mikið af því
er málfræði, föst lögmál og reglur, sem gilda. Okkur lang-
ar til að skilja málið, vita hvað orðin þýða, þegar rakið er
til rótar. Við erum svo heppin að tala það mál, sem
stendur næst frummáli allra germanskra þjóða. íslenzka
tungan geymir ein alla speki, sem allir forfeður vorir,
frá örófi alda, hafa hugsað. Hver spekingur af norræn-
um stofni, sem lifað hefir síðustu 5 þúsund árin, hefir
lagt vit sitt í málið og frjóvgað það. Allir hafa þeir falið
málinu að geyma speki sína, myndað orð, stutt, ljós og
sterk. Með dálítilli athygli getum við rakið orðin til rót-
ar, skilið málið í gegn. Það er eins og hreinasti kristall.
Silfurbergskristallinn íslenski klýfur ljósið í liti. íslenzk-
an klýfur orðin til rótar. Hvert orð hefir sína sögu, sína
speki fólgna og bundna.
Þetta allt eigum við að leysa úr viðjum. íslenzkan á að
kenna okkur að hugsa ljóst, tala ljóst og rita. Og við
verðum um fram allt að muna, að hverri kynslóð sem lif-
ir, er arfur falinn á hendur. Engin kynslóð á íslandi hefir
enn glatað máli sínu. Sumar hafa spillt því nokkuð, eigi
hirt um að fága það. Á það hefir fallið ryk og móða. En
ávallt hefir alþýðan ritað og talað fegursta málið.
Kynslóðin, sem nú er ung, verður fyrir mestum áhrif-
um utan úr veröld. Henni er hættara við en nokkurri
annarri að ata og saurga málið erlendum setningaskríp-
um. Þetta eigum við um fram allt að læra að varast. Kyn-
slóðin, sem nú vex upp á alþýðuskólunum, á að skila mál-
inu í hendur barna sinna fáguðu og slípuðu, skila því
auðugra, hreinna og sterkara en hún tók við því.
Ég tala hér aðeins um mínar námsgreinar sem dæmi.
Alveg nákvæmlega sama gildir um aðrar námsgreinar.
Við nemum enga grein vegna þess gildis, sem hún hefir í