Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1994, Blaðsíða 63
Breytileg orðaröð í sagnlið
61
stöðugleika, ef menn vilja heldur. Vissulega væri tíðni hinna mismun-
andi orðaraða mishá eftir textum; en sá breytileiki væri einstaklings-
bundinn og/eða háður gerð textans, en ekki tímanum. Þar með væri
gert ráð fyrir því að allan tímann byggi hver málnotandi í raun yfir
kerfi sem leyfði bæði OV- og VO-grunn. Ef þetta væri gert yrði hinn
raunverulegi breytingatími aðeins þeir áratugir í lok 18. aldar og fram
um miðja 19. öld þegar OV-einkennum fækkar að ráði, uns þau hverfa
nokkurn veginn á seinni hluta 19. aldar. Það væri í sjálfu sér mjög
eðlilegur breytingatími — u.þ.b. 100 ár eða svo.
Sé þessi kostur tekinn er hins vegar dálítið erfitt að meta breytinguna.
Venjulega líta menn svo á að málbreyting felist í því að nýtt form af
einhverju tagi kemur upp — ný framburðarmynd, ný beygingarmynd,
ný orðaröð o.s.frv. — og lifir við hlið þeirrar eldri í ákveðinn tíma,
en styrkist smátt og smátt á kostnað þeirrar eldri, uns sú eldri hverfur
að lokum. S-kúrfan, og aðrar slíkar, geta hentað ágætlega við að lýsa
málbreytingum af þessu tagi.
En öðru máli gegnir með breytingu eins og þá sem hér um ræðir.
Þar eru nefnilega bæði formin til þegar breytingin hefst, og þess vegna
er útilokað að negla niður upphaf hennar. Vænlegast væri að reyna
að komast sem næst því hvenær (sennilega um miðja 18. öld) hlutfall
VO-raða fer að hækka, og athuga síðan hvort hægt er að nota S-kúrfuna
til að lýsa þróuninni eftir það. Þetta er hins vegar erfitt, vegna þess að
hlutfallið er allan tímann talsvert misjafnt í ólíkum textum.
4.4 Ástœður breytingarinnar
En hvernig stendur á því að breytingin, hvarf OV-raða, gerist svona
tiltölulega snöggt? Um það er erfitt að segja. Það er auðvitað óvíst, eins
og ævinlega í sögulegri setningafræði, hversu mikið er hægt að byggja
á textunum. Það er ljóst að þau orðaraðartilbrigði sem um ræðir eru að
einhverju leyti stílbundin, og ákaflega erfitt er að segja að hversu miklu
leyti textamir sýna orðaröð samtímalegs talmáls.
Það má auðvitað halda því fram að tíðni OV-raða á seinni öldum
sýni ekki raunverulegt mál landsmanna á þeim tíma, heldur sé þar
um að ræða ritmálseinkenni sem hafi haldist vegna áhrifa fomsagna.