Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1994, Page 110
108
Kristján Arnason
öðrum kringumstæðum gætu það verið önnur orð. Orðin sem bera að-
aláhersluna eru táknuð með stórum stöfum, og verður þeim sið haldið í
því sem á eftir fer. Oft er það síðasta orðið í setningunni sem er sterkast
og ef tala má um eðlilega setningaráherslu, má gera ráð fyrir að hún
sé þannig. Eins og áður hefur komið fram er orðáhersla jafnan á fyrsta
atkvæði orðs, og er þetta þá þannig, sitt á hvað, að orðáherslan er á
fyrsta lið en setningaráherslan er á síðasta lið, og þetta saman hefur það
í för með sér, að við aðstæður eins og þær sem gert er ráð fyrir í (6)
verður kjamaatkvæðið fyrsta atkvæði síðasta orðs í setningunni. Það
er á þessu atkvæði sem áherslutónninn lendir. Og þar sem tónfallslot-
an endar að sjálfsögðu á mörkum, verður oft tiltölulega stutt á milli
áherslutónsins og markatónsins sem fylgir lokum tónfallslotunnar. Að
þessu verður nánar vikið í 2. kafla.
En eins og þegar er ýjað að eru þess mörg dæmi að setningaráhersla
lendi annars staðar en á síðasta lið setningar. Þessi dæmi eru af ýmsu
tæi, en hér skal einungis minnst á þrenns konar tilvik. í fyrsta lagi virðist
svo sem setningahlutar eða orðflokkar séu mis-„sterkir“ eða líklegir til
þess að bera áherslu. Ef breytt er ögn um orðalag frá því sem er í (la),
þannig að Dísa stendur ekki síðast heldur næstsíðast í setningunni, þá
er allt eins líklegt að það orð haldi áherslunni og verði sterkara en
lýsingarhátturinn komin:
(7) Þarna er DÍSA komin.
Með öðrum orðum, þarna er það ekki síðasta orðið sem hefur vinning-
inn, heldur virðast orðflokkarnir hafa mismikinn „meðfæddan styrk“,
þannig að ekki eru allir jafnir. Fleiri dæmi sem sýna þetta er að finna í
(8):
(8) a. Dísa kemur MEÐ mér
b. Ég tók hann MEÐ
c. Ég tók BÓK með
d. Þetta er bókin sem ég FÓR með
Það virðist mega draga þá ályktun af þessum dæmum, að eftirfarandi
stigvensl ríki milli orðflokka: