Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1994, Blaðsíða 127
Tilraun til greiningar á íslensku tónfalli
125
er komin, en hún gæti átt vel við þegar verið er að bíða eftir gestum í
boð og húsbændur er tekið að lengja eftir þeim, en það léttist á þeim
brúnin við það að Stína birtist. (Hugsanlegt er að segð af þessu tæi
yrði notuð við ýmsar aðrar aðstæður sem ekki gefst færi á að athuga að
sinni.) En ef tónlínan í (39b) er sett á sömu setninguna, eins og gert er
í (41), verður útkoman hins vegar sú að það er verið að segja frá þeirri
„einföldu" staðreynd að Stína er komin, og talandinn hefur ekki miklu
við það að bæta að svo stöddu:
(41) STÍNA er komin
HL L%
En hvernig er þá hægt að tengja notkun tónfallsformanna í (39) við
merkingu formanna í (40) og (41)? Eins og þegar hefur komið fram
og ég hef bent á í nýlegu greinarkorni (1994) er það býsna algengt
að enda segðir á háum tón ef gert er ráð fyrir að framhald verði á
samtalinu, þ.e. að ekki séu öll kurl komin til grafar, annað hvort vegna
þess að talandinn vill bæta einhverju við eða vegna þess að hann á
von á einhverjum viðbrögðum frá viðmælandanum. Hins vegar gæti
lækkun í lokin táknað að umræðunni sé lokið og ekki gert ráð fyrir
framhaldi. Hægt er að heimfæra þetta á þá túlkun þeirra Indriða og
Höskuldar að segðin í (39a), sem endar á háum tón, tákni eins og
tiltölulega góðlátlega ósk um að hætta að láta svona (eða þannig skil ég
túlkun þeirra félaga). Það að endað er uppi gæti þá merkt að „refsingin“,
sem biði viðmælandans ef hann færi ekki að fyrirmælunum, yrði ekki
„endanleg“, eða réttara sagt, talandinn virðist gera ráð fyrir að sá sem
hann talar við gæti komist upp með að óhlýðnast skipuninni. Sé þetta
hins vegar borið saman við tóninn í (39b), sem virðist mun strangari, þá
má hugsa sér að „strangleiki“ hans stafi af því að talandinn geri ráð fyrir
eða krefjist þess að málið sé þar með útrætt. Þegar þetta er borið saman
við notkunina í (40) og (41) virðist sem þetta geti alveg passað. í (41)
er gert ráð fyrir að málið sé útrætt, og ekki frekari athugasemda eða
hugleiðinga þörf. í (40), þar sem endað er á háum tón, er hins vegar gefið
í skyn að ekki séu öll kurl komin til grafar og ekki útséð um að fleira
fólk komi í boðið sem hjónin hafa undirbúið af svo mikilli kostgæfni.