Uppeldi og menntun - 01.01.2011, Page 57
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 20 (1) 2011 57
BrynJar ÓlafSSon og gÍSli ÞorSteinSSon
líkön sem gerð voru með sög án þess að nota hefil. Þjalir og sandpappír voru ekki
notuð þar sem bannað var að hylja galla eins og rispur og för. Nemendur voru látnir
gera æfingar til að þjálfa þá í notkun verkfæra. Til dæmis þurftu þeir að saga saman og
hefla í takt. Kennsluáætlunin varð að vera sveigjanleg til að geta einnig mætt þörfum
mismunandi einstaklinga. Trésmíði var eina viðfangsefnið þar sem tíminn sem ætlaður
var kennslunni þótti takmarkaður (Bennett, 1937).
Mynd 3. Úr kennslustund í danskri skólastofu um 1900
Almennir grundvallarþættir dönsku skólasmíðinnar voru:
1. Upphaf allra kennslustunda skyldi byggjast á eðlislægum áhuga barnsins.
2. Smíðaefnið átti að vera viður og eingöngu skyldi nota algeng verkfæri. Smíða-
verkefnin áttu að vera hlutir úr daglegu lífi, sérstaklega þeir sem þurfti að mála.
3. Kennsluna átti að skipuleggja þannig að hún samanstæði af (a) takmörkuðum
fjölda smíðaverkefna og æfingum í beitingu verkfæra og (b) ótakmörkuðum fjölda
samstæðra verkefna.
4. Kennslustundir áttu að byrja á æfingum sem ætlað var undirbúa smíði hinna
eiginlegu verkefna. Æfingar í ákveðnum verkþáttum átti að iðka hvenær sem
kennara þótti þess þörf og urðu þær að tengjast smíðaverkefninu.
5. Bæði átti að kenna öllum bekknum saman og einstökum nemendum sér. Bekkjar-
kennsluna átti að viðhafa til að kenna vinnustellingar, sýna rétta notkun verkfæra
og rétta verkaröð, t.d. við samsetningu hluta.
6. Þegar öllum bekknum var kennt átti að sýna hlutinn sem fyrirhugað var að smíða
og útskýra gerð hans, t.d. smáatriði er vörðuðu samsetningu hans. Kennarinn átti
að teikna verkefnin á töfluna og nemendur síðan að teikna þau í minnisbækur.
7. Verkfæri átti að velja eða búa sérstaklega til þannig að þau hentuðu stærð barna
og líkamsstyrk. Nemendur máttu ekki nota beitt verkfæri fyrr en notkun þeirra og
virkni hafði verið útskýrð að fullu.
8. Ekki mátti útmá för eftir bitjárn eða sagir með yfirborðsmeðferð.
(The Danish slöjd guide, 1893, bls. 2–5, íslensk þýðing greinarhöfunda)