Andvari - 01.06.2011, Side 10
8
GUNNAR STEFÁNSSON
ANDVARI
íslands skuli vera ævarandi þjóðareign og er fjallað rækilega um þetta atriði
í athugasemdum.
í kaflanum um Alþingi er ítarlega fjallað um kosningar til þings og þar
opnað fyrir persónukjör. 62. grein er um Lögréttu sem þingið kýs til fimm
ára, en sú nefnd á að gefa umsögn um hvort frumvarp til laga samrýmist
stjórnarskrá og þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins. í 64. grein er rætt
um að Alþingi geti skipað nefndir til að rannsaka mikilvæg mál sem almenn-
ing varða og er það breytt ákvæði frá núgildandi stjórnarskrá en sú heimild
hefur lítt verið notuð. Hvort tveggja er til að efla Alþingi, enda má segja að
allur þessi kafli miði að því að styrkja möguleika þingsins til áhrifa þannig
að það verði ótvírætt sú valdamiðja samfélagsins sem það á að vera en ekki
stimpill á ákvarðanir framkvæmdavaldsins eins og oft er kveðið að orði.
Fjórði kafli fjallar um forseta íslands. Þar er tekið vel á þeim vanda sem
löngum hefur verið óleystur um forsetaembættið. Það er alkunna að núverandi
forseti hefur beitt embættinu með öðrum og mun sjálfstæðari hætti en fyrri
forsetar og því nauðsynlegt að festa í sessi ákveðna skipan við embættið. Eitt
varðar kjör forseta, en stjórnlagaráð gerir tillögur um forgangsröðun kjósenda
á frambjóðendum. Það á að tryggja að meirihluti sé að baki forsetanum en án
þess að þurfi að hafa tvær umferðir í kjörinu eins og er til dæmis í Finnlandi
og Frakklandi. Þá er ákvæði um að forseti Alþingis sé einn varaforseti, en
ekki þeir þrír sem nú eru handhafar forsetavalds, það er forsætisráðherra og
forseti hæstaréttar auk þingforseta, en slíkt fyrirkomulag er alltof þungt í
vöfum.
Annað sem varðar forsetann er það að enginn megi sitja lengur í embætti
en þrjú kjörtímabil, tólf ár. Málskotsréttinum margrædda er haldið, heimild
forseta til að synja lögum um undirritun og vísa þeim svo til þjóðarinnar, en
um leið er ákvæði um að tíu prósent kjósenda geti krafist þjóðaratkvæða-
greiðslu, svo sem rakið er í kafla um Alþingi. Þá er forseta falin sjálfstæð
aðkoma að skipun í æðstu stöður, eins og dómara og ríkissaksóknara, og
einnig skipar hann formann nefndar sem fjallar um önnur æðstu embætti.
Virðast breytingar sem forsetaembættið varða ótvírætt til bóta.
Varðandi ráðherra og ríkisstjórn er lagt til að sá háttur sé hafður á sem
til dæmis er við lýði í Svíþjóð, Þýskalandi og Finnlandi að þingið kjósi for-
sætisráðherra þegar stjórn hefur verið mynduð. Er það gert til að undirstrika
þingræðisregluna, að ríkisstjórn geti ekki setið nema meirihluti þings vilji
styðja hana eða þola.
*
Frumvarp stjórnlagaráðs ásamt skýringum er mikið plagg, 200 síður í útprenti.
Hér hefur aðeins verið drepið á fáein atriði, en ástæða er til að hvetja fólk til
að kynna sér frumvarpið og fylgiefni þess vandlega. Síðan það var lagt fram