Andvari - 01.06.2011, Síða 46
44
GUÐRÚN KVARAN
ANDVARI
hjá öðrum, ræddu ekki persónuleg mál á Orðabókinni og sjálfsagt
ekki utan hennar heldur, en pólitík bar stundum á góma í kaffitímum
og voru þeir þá oftast sammála, báðir sannir sósíalistar. Mat Jakobs á
Asgeiri kemur afar vel fram í þeim þremur greinum sem hann skrifaði
um hann. Sú elsta er frá 1959 í tilefni fimmtugsafmælis Ásgeirs og
birtist í Þjóðviljanum 1. nóvember, önnur greinin var í tilefni sjötugsaf-
mælis Ásgeirs og birtist hún á afmælisdegi hans 2. nóvember í sama
blaði. Síðasta greinin var minningargrein um látinn vin sem birtist
í Þjóðviljanum 4. ágúst 1987. Allar greinarnar eru skrifaðar af hlýju
til góðs vinar sem hann kunni að meta öðrum mönnum meira. Þeir
vinirnir unnu þó lítið saman í fræðunum, ef frá er dregið daglegt starf
á Orðabók Háskólans. Þeir skrifuðu þó eina stutta grein í sameiningu
sem birtist í tímaritinu Maal og minne 1964 undir heitinu En ny drótt-
kvœttstrofe fra Bryggen í Bergen62 en allmikið af merkum heimildum
hafði komið í ljós ekki löngu fyrr við fornleifauppgröft þar í borg.
Mörgum nútímamanninum þætti starfið á fyrstu áratugum Orða-
bókar Háskólans fremur tilbreytingalítið. Það fólst í því að lesa valdar
bækur, merkja með mjúkum blýanti við þau orð sem ástæða þótti til að
velja og merkja utan um notkunardæmið. Eftir það voru orðin ásamt
notkunardæmum skráð á seðla og þeim síðan raðað í stafrófsröð og
aldursröð dæma í þar til gerða kassa. Síðar fékkst dálítil fjárveiting til
þess að greiða „fólki úti í bæ“ fyrir að skrifa upp úr orðteknum bókum.
Jakob sá um öll samskipti við aðstoðarfólkið, tók við bókum og seðlum
og greiddi fyrir verkið. Síðan bar hann saman seðla við bókina og
raðaði þeim oft eftir fyrsta staf. Ef Orðabókin átti ekki bækurnar, sem
merkt hafði verið í, þurfti að stroka merkingarnar út með strokleðri.
Á sjöunda áratugnum varð aðeins rýmra um fjárráð og var hægt að
ráða aðstoðarfólk til þess að raða seðlum og stúdenta á sumrin til þess
að orðtaka bækur, sem Jakob valdi, og stroka út merkingar úr láns-
bókum. Betri húsbónda en Jakob var ekki hægt að hugsa sér. Hann kom
aðeins seinna til vinnu með strætisvagni ofan úr Stigahlíð, glaðlegur í
rykfrakka og með svarta alpahúfu, settist niður inni hjá Ásgeiri, fékk
sér í pípu, spjallaði stutta stund, sló úr pípunni í öskubakka á borðinu
og síðan hófst vinnudagurinn. Hann leit sjaldan upp frá starfi sínu nema
til að svara fyrirspurnum, afgreiða seðlaskrifara, svara í símann. Hann
kom því af miklum og tímafrekum verkum. Þegar Jakob hætti gaf hann
mér öskubakkann sem hann hafði notað til að slá úr pípunni og mynd af
Arngrími Jónssyni lærða. Bakkinn er enn á borði í vinnuherbergi mínu