Andvari - 01.06.2011, Page 80
78
ÓLAFUR ÁSGEIRSSON
ANDVARI
mætti fram með uppástungur eða nauðsynleg og heppileg frumvörp, annað
hvört gegnum Þjóðvinafélagið eða alþíng.“17 Jón gerir ekki nánari grein fyrir
því hvað hann á við með því að mál fari annaðhvort gegnum Þjóðvinafélagið
eða alþingi.
Þjóðvinafélagið var fyrstu tvö árin eins konar styrktarfélag Jóns Sigurðs-
sonar - til að kosta stjórnmálabaráttu hans og útgáfustörf, og þá ekki síst til
að gera honum kleift að helga sig stjórnmálabaráttunni einvörðungu.
Löngum höfðu samherjar styrkt Jón eða skotið saman fé honum til stuðn-
ings. Fóru þar fremstir í flokki Vestlendingar með Ásgeir Ásgeirsson kaup-
mann á ísafirði í fararbroddi, en hann var einn þeirra utanþingsmanna sem
fengu hvatningarbréf Jóns vorið 1870. Nú var að koma þessu stuðningskerfi
í fastara fyrirkomulag er róðurinn hertist í stjórnarbótarmálinu og voru hinir
kjörnu Þjóðvinafélagsfulltrúar um land allt þar í lykilhlutverki við að taka við
félögum og safna fé. Jóni Sigurðssyni bauðst um þetta leyti embætti rektors
Lærða skólans eftir andlát Jens bróður hans, en látið var að því liggja með
óyggjandi hætti að þá yrði hann sem háttsettur embættismaður að hverfa frá
andspyrnu gegn stefnu stjórnvalda.18 Þjóðvinum þótti því til einhvers að vinna
að halda foringja sínum í framlínunni.
II
Víkur nú sögu á ný til haustsins 1871 er þorri þjóðkjörinna alþingismanna
hafði gert með sér félag, sett því lög en jafnframt ályktað, sem umdeildara
varð, að „félagið skyldi ekki gjöra þjóðkunnugt um störf sín fyr en það sýndi
sig, að menn almennt vildi aðhyllast það og styrkja það til framkvæmda,
svo að því væri nokkurs þroska von“ eins og Jón Sigurðsson orðaði sjálfur í
skýrslu félagsins. Jón vildi fyrst fá tóm til að kynna félagsskapinn nefndar-
mönnum í Félagsritunum og létu þeir vel af. Fór hinn nýi formaður (síðar for-
seti) Þjóðvinafélagsins að kenna fundi Félagsritamanna og stuðningsmanna
sinna í Höfn við Þjóðvinafélagsfundi. Samskot til félagsins og Félagsritanna
hófust af afli heima og ytra og Jón velti fyrir sér hvenær hann ætti að „aug-
lýsa“ Þjóðvinafélagið, helst með lögum, skýrslu um samskotin og útgáfu
ritgerðar um hagnýt málefni, búfræði eða verslun. Endaði hann með því að
setja sjálfur saman skýrsluna og semja bækling um bráðapest í sauðfé. Ekkert
var þó auglýst eða útgefið formlega fyrr en árið 1873. Einn angi félagsins var
raunar aldrei auglýstur.
„Undir alhvítri skör/ ber þú æskunnar fjör“ orti Steingrímur Thorsteinsson
um Jón Sigurðsson árið 1869. Nú stóð Jón á sextugu og hafði staðið í eld-
línunni í þrjátíu ár. Enn átti hann gamla samherja flestum stundum, eins
og Jón Guðmundsson ritstjóra Þjóðólfs og séra Halldór Jónsson á Hofi; að