Andvari - 01.06.2011, Page 94
92
ÁSTA KRISTÍN BENEDIKTSDÓTTIR
ANDVARI
Mér fannst ákaflega girnilegt að reyna að láta persónurnar koma fram í samtölum. Ég
notaði töluvert eintal. Snaran er á vissan hátt eintal og þó ekki því viðmælandinn er
alltaf nærstaddur. Sögumaður tekur alltaf upp hluta af því sem viðmælandinn hefur sagt
og leiðir út frá því, en þetta form hentaði söguefninu og mér mjög vel. Eintalið er mun
hreinna í smásögunni Lífshætta. Þar talar kona inn í hug sinn um heimsókn sem hún
hefur fengið og viðmælandinn er hvergi nærstaddur. Þessar sögur hefði verið hægt að
skrifa í samtalsformi, en ég kaus að hafa þetta svona. (Jakobína Sigurðardóttir 1988:19)
Sóparinn
Snaran er í raun ein stór persónulýsing þar sem sóparinn lýsir sér sjálfur með
orðum og gerðum. Enginn sögumaður eða önnur persóna gefur lesandanum
upplýsingar um persónu sóparans með beinum hætti og fyrir vikið vega orð
hans og tal þungt. Lesandinn verður samt að taka þeim upplýsingum með
ákveðnum fyrirvara. Sóparinn lýsir sér vissulega með orðum og gerðum - en
kannski ekki síst með því misræmi sem er þar á milli.
Sóparinn er dæmigerð aðalpersóna dramatísks eintals, sé miðað við lýs-
ingar Buchholz, Jahns og Hobsbaums. Hann segir oft eitt en meinar annað,
dregur orð sín til baka, lýgur vísvitandi, er orðljótur og baktalar yfirmenn sína
og samstarfsmenn en þorir ekki að láta á neinu bera þegar þeir heyra til. Hann
talar mikið um verkfallsrétt þann sem hann og aðrir í verkalýðsstétt hafi en
síðan kemur í ljós að hann myndi aldrei nýta sér þann rétt í raun og veru
heldur lætur hann yfirmenn sína múta sér til að vinna gegn réttindabaráttu
samstarfsmanna sinna. Sóparinn er sem sagt veiklyndur; bleyða sem metur
peninga meira en hugsjónir og hagar seglum eftir vindi hverju sinni. í eftir-
farandi tilvitnunum sést hvernig hann afhjúpar sig:
Nei, mér er skítsama hvað ég vinn, og hjá hverjum ég vinn, bara ef ég hefi vinnu og
fæ kaup fyrir mína vinnu. Skítsama, akkúrat skítsama —. (Jakobína Sigurðardóttir
1968:26)7
Fólk á ekki að reka trýnið í hluti, sem eru utan þess verkahrings, það borgar sig aldrei.
Vinna sitt verk, skila hæfilegum afköstum, halda kjafti og hirða sitt kaup, það er lóðið.
(9)
Ég segi fyrir mig, ég var að hugsa um að ganga út, en fyrst allir sátu kyrrir gat ég eins
setið líka. (27)
Persóna sóparans vekur oft sterk viðbrögð lesenda og sumir gætu átt erfitt
með að þola hann.8 Þar kemur frásagnarformið einnig við sögu því það er afar
ágengt og jafnvel óþægilegt. Lesandinn er settur í þá aðstöðu að hlera samtal
sem hann getur ekki blandað sér í og auk þess eru ágætar líkur á að hann