Uppeldi og menntun - 01.01.2012, Blaðsíða 115
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(1) 2012 115
Mannréttindi fatlaðs fólks og hlutverk
þroskaþjálfa
Fatlað fólk er oft síðast í röð þeirra sem öðlast raunhæfa vernd mannréttinda sinna óháð
því hvernig staðið er almennt að mannréttindavernd innan ríkja eða hver efnahagsleg staða
þeirra er. Með tilhneigingu samfélagsins til að gera fatlað fólk að „vandamáli“ og viðfangs-
efni annarra hefur mannréttindavernd fatlaðs fólks verið fótum troðin svo áratugum skiptir
(Quinn og Degener, 2002). Þar hafa skilgreiningar okkar og skilningur á hugtakinu fötlun
ráðið miklu og er gjarnan talað um að við séum að færa okkur frá ákveðnum einstaklings-
bundnum „galla“-sjónarhornum yfir í félagslegan og menningarlegan skilning á fötlun
(Rannveig Traustadóttir, 2003). Í stað þess að líta á fötlun sem galla eða afbrigðileika hefur
smám saman fengist á því viðurkenning að skerðingar séu eðlilegur hluti af fjölbreytileika
mannlífsins og þegar byggja á samfélag sem er raunverulega fyrir alla þurfi að taka mið
af ólíkum þörfum einstaklinganna sem þar búa. Hafa sumir fræðimenn viljað kalla þessa
nálgun mannréttindasjónarhorn á fötlun (Quinn og Degener, 2002).
Nýr Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks felur í sér og staðfestir þetta
mannréttindasjónarhorn. Samningurinn, sem ég kýs að tala um sem sáttmála, var sam-
þykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2006 og var undirritaður fyrir Íslands
hönd þann 30. mars 2007 (Velferðarráðuneytið, e.d.). Í febrúar 2012 hafa 153 lönd undirritað
sáttmálann og 110 þjóðir fullgilt hann.
Þroskaþjálfar eru sú starfsstétt sem starfar samkvæmt lögum „við þjálfun, uppeldi og
umönnun þroskaheftra“ (Lög um þroskaþjálfa nr. 18/1978). Ljóst er að lögin eru um margt
úrelt og bera keim af gamaldags viðhorfum þar sem eðlilegt þótti að fagfólk tæki helstu
ákvarðanir um líf fatlaðs fólks. Í Starfskenningu þroskaþjálfa (Þroskaþjálfafélag Íslands, e.d.)
er aftur á móti talað um fagstétt sem er menntuð til að starfa „með fólki á öllum aldri
sem býr við skerðingu“. Þar segir jafnframt að hugmyndafræði þroskaþjálfunar sé grund-
völluð í lögum, reglugerð og siðareglum þroskaþjálfa og byggist meðal annars á jafnrétti,
virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti og mannhelgi. Þessi þrjú hugtök eru lykilhugtök sam-
kvæmt mannréttindasjónarhorni á fötlun eins og það birtist í hinum nýja réttindasáttmála.
Í þessari grein verður leitast við að varpa ljósi á þessi þrjú hugtök en þau verða tengd við
einstakar greinar sáttmálans ásamt vangaveltum um ábyrgð þroskaþjálfa í því samhengi.
Helga BaldvinSdóttir BJargardóttir
réttindagÆSluMaður fatlaðS fólKS í reyKJavíK
og á SeltJarnarneSi
Uppeldi og menntun
21. árgangur 1. hefti 2012