Uppeldi og menntun - 01.01.2012, Blaðsíða 11
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 21(1) 2012 11
sigríðUr margrét sigUrðardóttir og rúnar sigþórsson
sem forystuhæfni skólans eykst en halda jafnframt áfram að vinna á fyrri stigum eftir
því sem við á og beita mismunandi stjórnunarstíl eftir þörfum. Í hugmynd Lambert
felst að virkni skólastjórans sem forystumanns sé mest í byrjun þegar hann er nokkurs
konar einfari á sviði forystu. Eftir því sem forystuhæfni skólans eykst verður forysta
annarra meðlima skólasamfélagsins virkari og samhliða getur skólastjórinn dregið úr
forystuvirkni sinni.
Stig tilsagnar er dæmigert þegar skólastjóri kemur að skóla þar sem samvinnu
skortir, skólastarf er ómarkvisst og framfarir takmarkaðar. Skólastjórinn er í hlutverki
kennara, ábyrgðarmanns og framkvæmdastjóra. Hann þarf að koma á samvinnu og
teymisvinnu, skapa skólasýn og grundvöll fyrir sameiginlegar væntingar, endurskil-
greina viðmið og innleiða notkun gagna og athugana í skólastarfinu. Hlutverk skóla-
stjóra í þessu ferli er oft þess sem veit best. Hann þarf að krefjast þess að árangur skólans
sé markvisst metinn, eiga frumkvæði að samræðum um skólastarfið, leysa erfið
vandamál, ögra og setja spurningarmerki við tiltekin viðmið, taka á vanhæfni, koma á
verkefnum sem krefjast þátttöku starfsfólks og leiðbeina um nýja kennsluhætti. Ekki
síst þarf hann að orða þá stefnu sem að lokum verður hluti af menningu skólans. Á
þessu stigi þarf skólastjórinn að hvetja og jafnframt vernda og styðja starfsfólk þannig
að sambönd fólks og hlutverk innan stofnunarinnar geti þróast í samræmi við breyttar
áherslur í skólastarfinu og nýja þekkingu.
Á stigi breytinga er skólastjórinn í hlutverki leiðsögumanns og þjálfara. Hann losar
smám saman tökin og gefur frá sér hluta af valdi og stjórn til annarra en þarf jafn-
framt að halda áfram að veita stuðning og þjálfun. Kennarar eru í hraðri þróun á þessu
tímabili en finna oft fyrir löngun til að hætta við þróunarverkefni þar sem þau virðast
of erfið. Hlutverk skólastjórans er að styðja þá með því að halda áfram samræðum,
taka þátt í ferlinu, þjálfa starfsfólk og leysa mál sem upp koma. Stig breytinga er
þýðingarmikið en tvísýnt tímabil og til að stýra skólasamfélaginu í gegnum það þarf
skólastjórinn að hugsa markvisst og skipulega, skilja á hvaða leið menningin er og
skynja hvenær tímabært er að draga sig í hlé jafnóðum og kennarar taka meiri forystu.
Á stigi mikillar forystuhæfni er skólastjórinn í hlutverki starfsfélaga, gagnrýnins
vinar og lærimeistara. öll umgjörð skólans hvetur kennara til að taka að sér forystu-
hlutverk. Skólastjórinn dregur sig að miklu leyti í hlé sem forystumaður og einbeitir
sér að því að útvega bjargir og koma fram sem samverkamaður frekar en drottnari.
Kennarar taka frumkvæði að ýmsum verkefnum og taka ábyrgð. Um leið og kennarar
og skólastjóri ná betri tökum á gagnkvæmum samskiptum og samræðu verður jafn-
ræði milli þeirra meira og aukinn samhljómur í viðhorfum þeirra og athöfnum. Rödd
kennara verður sterkari og áhrif þeirra meiri, sýn þeirra verður skýrari og þeir verða
jákvæðari gagnvart endurgjöf annarra í skólasamfélaginu. Skólastjórar þurfa ekki
lengur einir að koma á samræðum eða miðla málum, benda á það sem betur má fara
eða bjóða viðteknum viðmiðum byrginn heldur deila kennarar og stjórnendur orðið
sömu áhyggjum og vinna saman að sameiginlegum markmiðum (Lambert, 2006).
Í kenningunni um forystuhæfni skóla er gert ráð fyrir virkri þátttöku alls skólasam-
félagsins. Því telur Lambert (2003) að skólastjóri þurfi ekki einungis að vinna á þann
hátt sem hér hefur verið lýst með kennurum heldur einnig öðrum hópum skólasam-
félagsins: nemendum, foreldrum og öðru starfsfólki.