Hugur - 01.01.2008, Page 48
46
Bryan Magee
hann. Einungis þá verður allt sem varðar það hvernig hann skrifar sveigt undir
viðfangsefnið. Stíllinn snertir því heilindi í ásetningi: góður stílisti í heimspeki er
ætíð sá sem gleymir sér við ritstörfin með því að helga sig efninu. Sú staðreynd að
hann skrifar yfirleitt bendir til þess að hann vilji eiga samskipti við aðra af ástæðum
sem miðast við viðfangsefnið en ekki af ástæðum sem miðast við hann sjálfan.
Texti hans verður laus við allar þessar litlu veifur og vegvísa sem hafa þann
raunverulega tilgang að gefa til kynna eitthvað um hann sjálfan. Hafi hann rangt
fyrir sér mun hann vilja komast að því og þess vegna skrifa á þann hátt sem greiðir
fyrir slíkri uppgötvun. Gilbert Ryle, sem var sannur stílisti í hópi heimspekinga,
sagði: „Það er miklu auðveldara að koma upp um heimspeking [...] ef hann notar
ekki tæknileg orð og það mikilvægasta við röksemdafærslur heimspekings er að
það ætti að vera eins auðvelt og kostur er fyrir aðra, og einkum fyrir hann sjálfan,
að koma upp um hann sé það á annað borð hægt.“
Stíllinn er aukaafiirð þess sem hvetur okkur til að skrifa. Það er því ekki til neins
að ætla sér vísvitandi að ná góðum stíl eins og það væri markmið í sjálfii sér. Þegar
við gerum það er útkoman alltaf vandræðaleg, sumpart vegna þess að þetta er bara
enn önnur leið til að vera uppteknari af skoðunum annarra um okkur en af því
sem við erum að skrifa um. Matthew Arnold, einn hinna fáu miklu bókmennta-
gagnrýnenda sem bresk menning hefiir alið af sér, sagði: „Fólk heldur að ég geti
kennt því stíl. Endemis vitleysa! Hafið eitthvað að segja og segið það eins skýrt og
þið getið. Þetta er eini leyndardómur stílsins." Ég er sammála þessu af öllu hjarta.
Það dregur saman allt sem mig langar mest til að mæla með - bæði hvað snertir
það sem við sjálf ættum öll að reyna að gera og h'ka hvað varðar það sem við ættum
að meta mest hjá öðrum. Skrifið aldrei nema þið hafið eitthvað að segja. Beitið
síðan öllum hæfileikum ykkar til að gera það eins skýrt og þið getið. Og hafið
ávallt vitsmunaleg heilindi og hugrekki til að takmarka, ef ekki hafna með öllu,
aðdáun ykkar á verki einhvers, hversu klár sem hann kann að vera, sem hagar sér
öðruvísi.4
Gunnar Ragnarsson pýddi
4 [Greinin birtist í febrúarhefti breska tímaritsins Prospect árið 2000 og heitir á frummálinu
„Sense and Nonsense".]