Hugur - 01.01.2008, Síða 54
52
Jón A. Kalmansson
í siðferðilegri hugsun. Lýsing staðreynda er ekki sjálfsagt mál og engar fyrirfram
gefnar reglur geta ákvarðað það í eitt skipti fyrir öll hvernig á að lýsa staðreyndum.
Sú lýsing er alltaf að verulegu leyti komin undir hugkvæmni okkar og skilningi á
því hvað hefiir þýðingu og mikilvægi yfirleitt. Hins vegar leiðir gagnrýni Diamonds
í ljós hve glámskyggnir heimspekingar geta verið á hlutverk ímyndunaraflsins í
mannlegri hugsun. Margir þeirra tortryggja ímyndunaraflið, sjá það sem ógnun
við skýra siðferðilega hugsun, uppsprettu óleysanlegs ágreinings, eða jafnvel tómra
ímyndana og hindurvitna. Þótt slíkar áhyggjur séu ekki ástæðulausar þá virðist
mér, líkt og Diamond, að afleiðingar þessarar tortryggni í garð ímyndunaraflsins
verði þær að menn missi sjónar á eðli siðferðilegrar hugsunar - og mannlegrar
hugsunar almennt - og geri hana í raun að einhverju öðru en hún með réttu er.
Hugsun mannsins hefur alla tíð verið samofin virku ímyndunarafli, og án þess væri
engin heimspeki svo orð væri á gerandi. Það er því við hæfi að hefja þessa skoðun
á tengslum hugsunar, siðferðis og ímyndunarafls á heimspekinni sjálfri.
Undrunin: Upphaf heimspekinnar
Sá sem veltir fyrir sér tengslum hugsunar og ímyndunarafls gæti byrjað á að rifja
upp þau orð Platons (Þeætetos, i55d) að undrun sé ástríða heimspekingsins og hún
sé upphaf heimspekinnar. Sé haft í huga að undrun er ein birtingarmynd ímynd-
unaraflsins, að án ímyndunarafls eða hugarflugs gæti mannskepnan ekki undrast,
er vart hægt að hugsa sér afdráttarlausari staðhæfingu um tengsl hugsunar og
ímyndunarafls en þessi orð Platons. Af þeim má ráða að maður sem er með svo
takmarkað ímyndunarafl að hann kann eða getur ekki undrast sé ófær um að
hugsa í fyllstu merkingu þess orðs. Einber rökhugsun megni ekki að gera mann
að hugsandi veru, og heldur ekki sambland af vísindalegri athugun og rökhugsun.
Sú staðreynd að við sem nú lifúm hneigjumst til að líta á hugsun nær eingöngu
sem vísindalega og tæknilega hugsun væri því í augum Platons til vitnis um
hnignun hugsunarinnar.9
Að hverju beinist undrun heimspekingsins samkvæmt Platoni? Orð Platons um
undrunina eru fá og gefa ekkert svar við þessari spurningu. Því þarf að geta í eyður.
Hannah Arendt bendir á að undrun heimspekingsins, eins og Platon skilur hana,
varði aldrei aðeins einstaka hluti heldur vakni andspænis heildinni, því samræmi
eða þeirri skipan alheimsins sem hvergi er beinlínis augljós, en má þó læra að
greina í öllum sköpuðum hlutum.10 Arendt tengir þessa hugmynd um undrunina
við aðra hugmynd sem á yfirborðinu virðist vera henni frábrugðin, en hún telur
þó vera í eðli sínu hina sömu. Það er hugmyndin um að uppspretta heimspekilegrar
undrunar sé sjálf tilvistin. Þá hugmynd mætti setja fram í spurnarformi líkt og
9 William James segir í bók sinni um heimspeki, Some Problems of Philosophy, að sögulega
hafi heimspeki alltaf verið eins konar gagnkvæm frjóvgun fjögurra mannlegra hugðarefna,
vísinda, ljóðlistar, trúarbragða og rökfræði. Með öðrum orðum, mannleg hugsun er alvarlega
takmörkuð nema a/úVþessir fjórir þættir fái að njóta sín og verki hver á annan. William James.
Wri/ings 1902-1910, New York: The Library of America 1987, s. 987.
10 Hannah Arendt, The Life of the Mind, San Diego: Harvest 1978, s. 143-144.