Sagnir - 01.05.1982, Qupperneq 48
konur ættu að vera virkar í þjóðmálum, en
þær sömu konur settu ekki spurningamerki við
þjóðfélagsgerðina eða karlveldið, þær trúðu
því að lagaleg réttindi myndu tryggja jafn-
rétti. Kvenréttindakonurnar áttu leik meðan
flokkakerfið var ómótað, en um leið og
stéttastjórnmálin urðu ríkjandi hvarf hver til
síns heima. Það voru einkum konur em-
bættismanna (húsmæður) og ekkjur sem
stóðu í fremstu víglínu í gamla daga, konur
sem kröfðust áhrifa til jafns við karla í sinni
stétt, en létu aðrar konur að mestu lönd og
leið.
í dag horfir öðru vísi við. Iðnaðarsamfé-
lag er tekið við af bændasamfélaginu, með
öðrum lífstíl og öðrum kröfum. Það eru úti-
vinnandi konur sem nú grípa til þess ráðs að
bjóða fram einar sér. Þær vilja breyta samfé-
laginu þannig að tekið sé mið af þörfum fjöl-
skyldunnar og að reynsla kvenna fái að njóta
sín við ákvarðanatöku og stefnumótun í
samfélaginu. Þær vilja mótmæla og storka
því kerfi sem fyrir er, þær hafna stjórnmála-
flokkunum eins og þeir eru og hafa verið um
áratugi. Þær hafa sett fram stefnu, skilgreint
þann grundvöll sem starfað skal á og samtök
eða hópur kvenna standa að framboðinu.
Hugmyndin er ekki ,,að koma konum að“,
heldur að finna nýjar leiðir til að breyta sam-
félaginu sem virðist stefna að æ meiri ein-
angrun einstaklinganna, hólfun fólks eftir
aldurshópum, upplausn fjölskyldunnar, æ
ómanneskjulegra umhverfi, mengun og
verðmætamati sem er mannskemmandi.
Kvennaframboð eitt og sér breytir kannski
ekki miklu, en með því hefur tekist að skapa
umræðu og hrista upp í fólki. Kvennafram-
boðið er róttæk leið, eins og málum er nú
háttað, vegna þess að það sker á allar þær
línur sem fyrir eru. Sú spurning sem hvilir á
hugum þeirra kvenna sem gengið hafa fram
fyrir skjöldu með gömul kvennaráð er þessi:
í hvers konar samfélagi viljum við lifa og
hvaða leiðir eru færar inn á nýjar brautir þar
sem rúm er fyrir mannleg samskipti, tilfinn-
ingar, sköpun, náttúruskynjun, heim þar
sem friður ríkir.
Heimildir:
Afmælisrit Kvenréttindafélags fslands 1947.
Alþingistíðindi 1907 og 1909.
Gísli Jónsson: Konur og kosningar, Menningarsjóður
1977.
Heimir Þorleifsson: Frá einveldi til lýðveldis, Rvík
á Akureyri.
Kristín Ástgeirsdóttir: Óprentaður fyrirlestur um nýju
kvennahreyfinguna á fslandi.
Kvennablaðið 1907—1911.
Kvennaframboðið 1. tbl. 1982.
Kvindebevægelsen hvem-hvad-hvor, Kaupmannahöfn
1975.
Kvindesituation og kvindebevægelse undir kapital-
ismen, Kaupmannahöfn 1974.
Laufey Valdimarsdóttir: A Brief History of the
Woman Suffrage Movement in Iceland. London 1929.
Lög Samtaka um kvennaframboð. Reykjavík 1982.
Ragnhildur Pétursdóttir: Þingfulltrúi íslenskra
kvenna Reykjavík 1928.
Auk þessa greinar í Reykjavíkurblöðunum frá síðari
hluta 19. aldar og byrjun hinnar 20. s.s. Þjóðólfi, Fjall-
konunni, Reykjavík og ísafold.
Einnig ræður og fyrirlestrar sem ekki hafa enn birst á
prenti eftir greinarhöfund o.fl.
46