Helgafell - 01.04.1944, Blaðsíða 52
34
HELGAFELL
sem umlykur mjallhvítt konulík, er þrunginn óhugnan. Moldin tekur á sig
óljósa mynd af höfði, herðum og handleggjum, en hið óljósa er alltaf dul-
arfullt.
,,Ur álögum“ er snilldarleg samstilling ólíkra hluta. Drekinn, sem lagð-
ur er að velli, er risavaxinn og ægilegur, riddarinn horfir æðrulaust á unnið
afrek, konan er fersk og nýsköpuð, álagahamurinn líflaus og slapandi. En
andstæðurnar í myndbygging Einars Jónssonar eru miklu víðtækari. í flest-
um verkum sínum notar hann geómetrísk form og línur til að stinga í stúf við
líflínur líkamans. Hnötturinn er algengt fyrirbrigði (,,Tíminn“, ,,Jólaljósið
o. fl.) og listamaðurinn hefur mætur á því að nota beinar línur og hringi sem
bakgrunn við líkamsformið (,,Ur álögum“, ,,Þorfinnur Karlsefni", ,,Ing-
ólfur Arnarson“ o. fl.).
Þessi atriði, sem minnzt hefur verið á, snerta aðeins hið ytra form, en
það er svo sérkennilegt og ólíkt því sem tíðkast í höggmyndalist, að það
er sannarlega þess vert, að því sé meiri gaumur gefinn, en gert hefur verið
hingað til.
Það væri efni í heila bók að lýsa hinu auðuga hugmyndalífi í list Einars
Jónssonar, enda á fárra færi. Flest verk hans eru táknræns eðlis. Þau búa
yfir dularfullum kynngikrafti eða hljóðum helgiblæ, sem tala sínu ógleyman-
lega máli til áhorfandans, hvort sem hann aðhyllist þann boðskap, sem verk-
in flytja eða ekki. En sönn list á erindi til allra, því að það er ekki boð-
skapurinn, sem skapar listina, heldur hitt, hvernig hann er fluttur.
Oll skapandi list er skáldskapur, en skáldskapur er ekki höggmynda-
list, nema hann birtist í formum eða línum. Þetta hefur Einari Jónssyni
aldrei gleymzt, en því miður hefur meira verið ritað um hann sem ,,skáld“
en sem myndhöggvara, og með því gengið á snið við það, sem raunverulega
hefur skapað listamannsfrægð hans. Það er ekki hægt að skýlja listaverk,
því að listin talar alltaf til hjartans, en ekki til heilans. Það er aðeins hægt
að horfa á það og njóta þess, og sá, sem ekki hefur hæfileika til að njota
þess, er engu nær, þótt honum sé sagt, að það sé fallegt.
Hinn 11. maí þ. á. verður Einar Jónsson sjötugur. Hefur hann þá starfað
næstum hálfa öld sem fullþroska listamaður, og enn er starfsþrek hann
óbreytt. Um leið og vinir hans og aðdáendur óska honum gæfu og gengis
á þessum tímamótum ævi hans, hafa þeir fulla ástæðu til að vænta þess,
að enn eigi hann eftir að skapa listaverk, sem ekki standi að baki afrekum
liðinna ára.
Jóhann Briem.