Tímarit Máls og menningar - 01.12.1954, Síða 37
HÓTELGESTIR
227
henni nákvæmlega jafn ókunnuglega fyrir sjónir. ÞaS var eins og borg-
in hefði verið tæmd á meðan hún var í burtu og fyllt síðan á ný með
bláókunnugu fólki. Hún hafði ekki komið auga á einn einasta mann sem
hún kannaðist við. Þetta var allt önnur borg, og þótt nöfnin á götuskilt-
unum væru þau sömu, var eins og þau hefðu misst alla merkingu og
hengju þarna bara fyrir einhverja óskiljanlega gleymsku. Það hafði
jafnvel komið fyrir að hún villtist og varð að spyrja ókunnugt fólk til
vegar í hverfi, þar sem hún hafði búið í meira en ár.
Allt hafði breytzt, og þó hafði engu verið breytt. Þannig var tíminn,
þessi þensla í rúminu sem gerir alla viðskila við allt.
„Ég er orðin of gömul til að vera að þessu svermeríi fyrir dauðum
hlutum,“ hugsaði hún og leit nú í fyrsta skipti á fylgjunaut sinn sem var
ennþá að grúska í matseðlinum. Hann hafði hvít hár á augnalokunum,
og þegar hann horfði svona niður fyrir sig, var eins og allur svipur dytti
úr andlitinu. Hún fór að rifja upp fyrir sér, hvort hún hefði ekki ein-
hverntíma horft á hann sofandi, en gat ekki munað það. Það var annars
skrítið, að hún skyldi aldrei hafa horft á hann sofa!
— Við skulum koma, sagði hún.
Hann var að borga reikninginn, þegar þau heyrðu fyrstu hljóðin, en
þau grunaði ekki að neitt sérstakt væri um að vera og voru komin út á
götu — hún spölkorn á undan — þegar þau sáu manninn. Það var eins
og eldibrandi væri slöngvað yfir götuna, og þetta kom þeim á óvart. Þau
voru dálitla stund að átta sig á því, að þetta var maður. Það logaði upp
úr bakinu á honum, og hann hljóp hálfboginn upp á gangstéttina —
hljóp í hringi og æpti meðan eldurinn magnaðist í klæðum hans. Þeir
sem áttu leið um götuna stönzuðu og horfðu á . . . og úr hliðargötunum
bættist við fleira fólk sem runnið hafði á hljóðin. Menn stóðu sljóir og
dolfallnir og viku hæversklega til hliðar fyrir manninum sem var að
brenna — svo hann gæti hlaupið. Hann hljóp bognari og bognari í
hringi sem sífellt urðu styttri — Loks var eins og eldurinn sligaði hann,
og hann þrúgaðist niður á stéttina með lágu kveini. Fólkið þrengdi sér
inn á hann frá öllum hliðum eins og svartur flaumur, og hann hvarf sjón-
um þeirra. Síðan ríkti djúp þögn og algjört atburðaleysi, sem rofnaði
ekki fyrr en allt í einu að fylgjunauturinn sagði: