Tímarit Máls og menningar - 01.06.1984, Blaðsíða 15
Staðleysur, góðar og illar
unaráhrifum) og með soma. En soma er vímugjafi sem hefur „alla kosti
alkóhóls og kristindóms en enga galla þeirra“7) og leyfir mönnum að fara
reglulega í aukafrí frá þægilegri en atburðalausri tilveru. Þarna rekumst við
ekki á grimma leynilögreglu og refsingar eru ekki strangar, þótt menn geti
fallið í áliti. (Þess má geta að einn sérvitringur, dálítið misheppnað flösku-
barn, á það á hættu að vera sendur í útlegð til Islands þar sem hann mun síð-
ur gera ógagn en í öðrum plássum — en þar á hann líka í vændum að hitta
aðra sérvitringa og þar með heimsins skásta fólk!) en í „Fögru nýju veröld“
þarf reyndar ekki strangar refsingar einfaldlega vegna þess að búið er að
skilorðsbinda mjög rækilega hvern og einn, það er búið að slökkva á öllum
vandræðum. Eftirlitsmaðurinn, sem þekkir alla leyndardóma „Fögru nýju
veraldar" segir:8)
Heimurinn er nú fastur í sessi. Fólkið er hamingjusamt, það fær það sem
það vill og það vill aldrei það sem það getur ekki fengið. Mönnum líður vel,
þeir búa við öryggi, þeir veikjast aldrei, þeir óttast ekki dauðann, þeir eru
blessunarlega fáfróðir um ástríður og elli, feður og mæður plaga þá ekki, þeir
eiga sér ekki konur eða börn eða elskhuga sem þeir bera til sterkar tilfinning-
ar, þeir eru skilyrtir á þann veg að þeir geta í raun ekki hagað sér öðruvísi en
þeir gera. Og ef eitthvað fer úrskeiðis — þá fá þcir soma.
Löngu seinna, árið 1958, átti Aldous Huxley eftir að gefa út bókarkver til
að sýna fram á það hve góður spámaður hann væri (Brave New World
Revisited). Þar segir hann að þróunin hafi orðið miklu örari en hann óraði
fyrir, talar um ofstjórnarhneigðir, forheimskandi áróðurstækni einræðis-
ríkja og auðhringa, samþjöppun ósýnilegs valds á fáar hendur, sjónvarpið
sem vímugjafa, sókn í amfetamín og kannabis. Síðan hefur margt gerst
undarlegt og siðferðilegur vandi tengdur fikti við erfðastofna er kominn
ofarlega á dagskrá hjá vísindamönnum.
Huxley hefur ef til vill lært það af skáldsögunni „Við“ eftir Zamjatín, sem
bráðum verður vikið að, hvernig framtíðin girðir af útópíuna og hinn gamla
heim. í „Fögru nýju veröld“ er gamli heimurinn geymdur á „verndarsvæð-
um“ þar sem lifað er frumstæðu, villtu, fátæku og grimmu lífi. Þangað fara
flöskubörnin stundum til að kíkja á þá innfæddu, líkt því sem túristar
nútímans leggja undir sig Nýju Gíneu, og af slíkri heimsókn spinnst
söguþráðurinn í skáldsögu Huxleys. Ungur maður, ættaður úr „Fögru nýju
veröld", fæðist og elst upp hjá móður sinni á indjánaverndarsvæði í Mexíkó
og er tekinn þaðan í tilraunaskyni. Hann hafnar bæði soma og feelies og flýr
siðmenninguna þegar hann fær ekki að upplifa sanna ást, reynir að lifa eins
og „villimaður“ í yfirgefnum vita á Bretlandi. En einsemdin og frek forvitni
fréttamanna og túrista sem sækja að honum á þyrlum leika hann grátt —
245