Tímarit Máls og menningar - 01.06.1984, Blaðsíða 16
Tímarit Máls og menningar
hann gengur af göflunum og fremur sjálfsmorð. Það er ekkert val, ekkert
fær framar truflað hið þægilega gervilíf „Fögru nýju veraldar".
Skáldsagan „Við“ (My) eftir Rússann Evgéní Zamjatín var skrifuð árið
1920 á þriðja ári rússnesku byltingarinnar, sem var stórtækasta tilraun sem
gerð hefur verið til að byrja á að færa staðleysuna inn í veruleikann. Sagan er
ólík verkum Capeks og Huxleys að því leyti, að þar er áherslan ekki lögð á
tækni og vísindi sem illan anda úr flösku sloppinn, heldur á valdið, hið
takmarkalausa vald yfir einstaklingunum sem og á tilverurök þess. Þessi bók
er ekki mjög þekkt, en hún hefur haft meiri áhrif á þær neikvæðu útópíur
sem á eftir koma en einstakar bækur aðrar. George Orwell taldi líklegt að
„Fagra nýja veröld“ væri að nokkru leyti stæling á „Við“.9) Munurinn er sá,
segir Orwell í ritdómi frá árinu 1946, að „Við“ lýsir miklu dýpri skilningi á
eðli valdsins, „óskynsemi" þess sem gerir valdið og grimmdarlega beitingu
þess að markmiði í sjálfu sér. Um bók Orwells sjálfs, „1984“, var seinna sagt
að hún stældi Zamjatín líka og mun vikið að þeim skyldleika hér á eftir.
Zamjatín var vinstrisinni, einn þeirra „villumanna" (aðeins villumenn geta
skrifað bókmenntir sagði hann), sem óttaðist snemma að bolsévíkar mundu
teyma rússnesku byltinguna út í ógöngur alræðisins. Neikvæða staðleysu
sína hugsar hann samt ekki endilega sem framhald sovétskipulags eftir 600
ár, enda var það rétt á bernskuskeiði. En hann þótti sjá fyrir margt
undarlega vel árið 1920 — t. d. óhemjudýrkun á Velgjörðarmanninum,
hinum mikla leiðtoga sem allt veit, þrælskipulagðar njósnir allra um alla,
miskunnarlausa tortímingu allra andstæðinga og hlálegar kosningar þar sem
allir endurkjósa Velgjörðarmanninn sem einn maður:10)
Auðvitað er þetta ólíkt þeim óreiðukosningum sem fornmenn efndu til,
þegar menn vissu ekki einu sinni hvernig kosningarnar myndu fara, svo
hlægilegt sem það nú er. Hvað getur verið fáránlegra en að byggja ríki á
fullkomlega óútreiknanlegum tilviljunum?
Af slíkum dæmum hefur skáldsagan „Við“ í vitund manna fyrst og fremst
orðið að grimmri viðvörun um þá möguleika, sem fólust þegar í sjálfu
tilkalli bolsévíka til þess að þeir hefðu einir tök á réttum og vísindalegum
skilningi á samfélagi og hreyfilögmálum þess.
„Við“ gerist að nokkrum öldum liðnum í þaulskipulagðri borg úr gleri og
stáli sem er einangruð frá umheiminum með grænum vegg og fær enginn að
fara út fyrir. Hér hafa einstaklingurinn og frelsið verið þurrkuð út í þágu
stærðfræðilega útreiknaðrar hamingju (stíll sögunnar er reyndar mjög
mengaður stærðfræði). Eintök af mannfólki bera öll sama einkennisbúning,
ganga undir númerum og ganga eftir klukku í einu og öllu: marséra saman í
246