Tímarit Máls og menningar - 01.06.1984, Page 57
Ingibjörg Haraldsdóttir
Afmæliskveðja til vinar
Kúbanska byltingin 25 ára
I
Hvít borg teygir turna sína og háhýsi uppúr ævintýrabláum Mexicoflóa.
Farþegaskipið Grúsía nálgast borgina hægt og virðulega, fuglar garga í
morgunskímunni sem allt í einu verður að skæru sólarljósi og fylgir því hiti
sem á eftir að færast ótæpilega í aukana eftir því sem líður á morguninn.
Næturfölir farþegar læðast upp á þilfar einn af öðrum og lifna við þegar
borgin hvíta opinberast þeim, viðbrögðin ævinlega hin sömu: æðisglampi í
auga og æpt: La Habana! La Habana! Um borð eru hundruð kúbanskra
ungmenna á heimleið frá Austur-Evrópu. Fullt skip af háværu, glöðu fólki
með lítil útvarpstæki í höndum — nú má loksins ná útsendingum kúbanskra
stöðva og Radio Habana býður góðan dag með dillandi rúmbutakti. Það er
dansað og hlegið og grátið á þilfarinu. Ég stend við borðstokkinn og góni á
borgina sem nálgast. Nú er hún ekki lengur hvít. Hún er skellótt og
skræpótt og full af hlæjandi fólki sem stendur á ströndinni og veifar til
okkar. Við siglum inn í höfnina, framhjá Morro-virkinu þar sem vökulir
Spánverjar stóðu fyrrum og fylgdust með ferðum sjóræningja. Skipið leggst
að bryggju.
Aragrúi af fólki bíður komu skipsins. Á hafnarbakkanum standa þrír
skartklæddir menn með hljóðfæri og flytja okkur angurværa tónlist meðan
við bíðum eftir landgöngubrúnni. Nokkrir menn koma hlaupandi með
bókastafla og koma þeim fyrir við endann á brúnni. Þegar allt er klárt er
okkur hleypt í land. Eg trítla niður brúna; einhver réttir mér bók og fylgir
henni breitt bros. Velkomin til Kúbu! Eg lít á gripinn: Dagbók Che
Guevara í Bólivíu. Hún er nýkomin út, var prentuð í stóru upplagi og er nú
dreift ókeypis til þeirra sem koma með skipinu. Tæpt ár er liðið síðan Che
var myrtur í Bólivíu en minning hans lifir á Kúbu og norður í Evrópu er
nafn hans á allra vörum þetta sumar, sumarið 68. Gracias, segi ég og tek við
bókinni.
Seinna sama dag er ég stödd í húsi tengdaforeldra minna í einu af úthverf-
um Havana. Stórfjölskyldan er þar saman komin til að líta á aðskotagripinn
sem skolað hefur á fjörur hennar. Húsið stendur í brekku, lítið hús á
287