Tímarit Máls og menningar - 01.05.1985, Qupperneq 40
Tímarit Máls og menningar
líka fram að viðfang vísindalegrar þekkingar sé setningar eða yrðingar.
„Gáðu að því,“ segir Vilhjálmur við Adso, „ég er að tala um yrðingar um
hluti, ekki sjálfa hlutina. Vísindin fást við yrðingar og liði þeirra og liðirnir
gefa til kynna einstaka hlud.“ (194) Orðið „liður“ (terminus) er hér notað
um einingarnar sem yrðingar eru búnar til úr, orð eða orðasambönd. Þannig
eru „Sókrates“ og „maður“ liðir setningarinnar „Sókrates er maður“.
Samkvæmt kenningu Ockhams merkir altæk setning eins og „maðurinn er
viti borið dýr“, sama og „sérhver maður er viti borið dýr“, sem aftur er eins
konar skammstöfun fyrir „Jón er viti borið dýr“, „Gunna er viti borið dýr“
og svo framvegis. Og eins og áður er greint vísa hin altæku orð í slíkum
setningum um einstaklinga til einstaklinganna sjálfra. Það er þetta sem
Vilhjálmur af Baskerville hefur í huga, þegar hann segir að liðirnir „gefi til
kynna“ einstaka hluti (194). Eco notar sögnina „indicare", sem hér væri
skýrara að þýða með „vísa til“. Ockham notar yfirleitt sjálfur „significare",
sem merkir „að tákna“, „merkja“.
Sú hugmynd sem aflað hefur Ockham mestrar frægðar er kenning eða
regla sem kveður svo á að í allri kenningasmíð beri að ástunda sparsemi:
„Ekki skal gera ráð fyrir fleiri hlutum en nauðsyn krefur.“ Þetta boð, sem
Ockham beitir á ýmsa lund í ritum sínum, hefur verið nefnt „rakhnífur
Ockhams“ — „rakhnífur“ vegna þess að með regluna að vopni má skafa
burt ónauðsynlega aðskotahluti. Samkvæmt þessu boði ættum við til dæmis
ekki að gera ráð fyrir því að draugar séu til, ef við getum skýrt það sem
tilvist drauga á að skýra — leirtau brotnar í skápum, hvítklæddar verur á
ferli — á annan hátt. Hugsunin er einfaldlega sú að ef við getum skýrt
eitthvert fyrirbæri, Y, sem við viljum skýra, án þess að gera ráð fyrir að X sé
að verki og X er eitthvað sem við myndum ella ekki gera ráð fyrir að sé til,
þá skulum við ekki gera ráð fyrir að X sé til heldur skýra Y á annan hátt.
Hérlendis hefur þetta boð Ockhams aldrei náð neinni hylli, og nær sanni
væri að segja að hér hjá okkur gildi alveg gagnstæð regla, sem kalla mætti
regluna um verufræðilegan munað. Hún kvæði svo á að játast skuli ef svo
ber undir þeim kenningum sem gera ráð fyrir sem allra flestum og
fjölbreytilegustum hlutum: draugum, álfum, öndum, líkamningum, út-
frymi, ómældri óbeislaðri hugarorku, sem allra flestum glötuðum handrit-
um og svo framvegis. I Nafni rósarinnar kemur rakhnífur Ockhams ekki
við sögu, nema kannski á einum stað þar sem Vilhjálmur lætur í ljósi þá
skoðun að óþarft sé að gera ráð fyrir aðild djöfulsins að glæp sem hægt sé að
skýra án þess að gera ráð fyrir henni (34).
Hnífur Ockhams og hin nýja þekkingarfræði hans var afdrifarík, svo
afdrifarík raunar að skólaspekin varð aldrei söm eftir. Hinar ströngu kröfur
um vitnisburð sem Ockham gerði til þekkingar, þrengdu mjög að náttúr-
174