Tímarit Máls og menningar - 01.05.1985, Page 42
Tímarit Máls og menningar
sannleikann og Vilhjálmur lætur í ljósi efasemdir um hann, en Adso minnir
hann á fjölmargar sannar setningar, sem hann, Vilhjálmur, hafi uppgötvað
síðustu daga. Vilhjálmur lætur sér fátt um finnast og segir: „Eg hef aldrei
efazt um sannleika táknanna, Adso, það er hið eina sem maðurinn ræður
yfir til að átta sig í veröldinni. Það sem ég hef ekki skilið er afstaðan milli
táknanna.“ (458) Hér er Vilhjálmur að gefa til kynna þá skoðun nafna síns
— sem raunar var ekki frumleg — að setningar, þ. e. ákveðin röð af táknum,
séu það eina sem getur verið satt eða ósatt og jafnframt eina hugsanlega
viðfang þekkingar okkar. Jafnvel þegar við skynjum eitthvað beint, þá er
það sannleiksgildi tiltekinnar setningar sem við vitum: þegar lesandinn
skynjar hér og nú að það er hvítt blað með svörtum stöfum fyrir framan
hann, þá er það sem hann veit að setningin: „Það er hvítt blað með svörtum
stöfum fyrir framan mig“ er sönn. Um þetta — sannleiksgildi einstakra
setnmga um einstaka hluti — efast Vilhjálmur ekki. Hann efast hins vegar
um að til sé einhver sannleikur um samband hlutanna í veröldinni, sem hann
orðar hér með því að tala um „afstöðu táknanna“. Litlu síðar orðar hann
þessa sömu hugsun á hversdagslegri hátt: „Ég hef látið þvermóðskuna
teyma mig, og fylgt eftir eftirlíkingu af reglum, þegar ég hefði átt að vita vel
að það er engin regla í alheiminum." (459)
Þess var áður getið að Ockham taldi að sannir dómar um orsakasamband
séu ekki nauðsynlega sannir. Það er nánast þetta sem Vilhjálmur á við þegar
hann segir að engin regla sé í alheiminum. Hugsuðir í hinni platónsk-
aristótelísku hefð — til hennar má telja alla kristna og islamska fyrirrennara
Ockhams á miðöldum — gerðu ráð fyrir því að skipan heimsins sé til sem
hugsanir Guðs. Til hinna forgengilegu hluta þessa heims svara eilífar og
óumbreytanlegar hugmyndir í huga Guðs. Og ekki nóg með það, þessar
hugmyndir eru röklega og þar með nauðsynlega tengdar hver annarri á
margvíslegan hátt: Guð getur ekki hugsað sér mann, til dæmis, nema hugsa
sér dýr í leiðinni, og hann getur ekki hugsað sér eldinn án þess að hugsa sér
hita eða vaxið án þess að hugsa sér efni sem bráðnar í hita. I stuttu máli:
skipan heimsins og þar með talin náttúrulögmálin eru gefin í eitt skipti fyrir
öll sem hugsanir Guðs. Eru þá ekki náttúrulögmálin nauðsynlega sönn?
Gæti heimurinn verið öðruvísi en hann er?
Grískir hugsuðir á borð við Platón, Aristóteles og Plótínos svara neit-
andi: skipan heimsins er gefin í hugmyndum Guðs og Guð hlýtur að hafa
þær hugmyndir sem hann í raun hefur, það væri óhugsandi að hann hefði
einhverjar aðrar. Með nokkrum rétti mætti segja að hjá þessum Grikkjum sé
Guð í senn sjálf skipan heimsins og hreyfiafl hans án efniviðarins sem
skipað er. Svo notað sé líkingamál má segja að hann sé í senn byggingar-
meistarinn og teikningin sem hann vinnur eftir. En hver á þá hugmyndina
176