Tímarit Máls og menningar - 01.06.1999, Page 18
Guðmundur Andri Thorsson
Einkavæðing textans
Spjall á fundi um íslenskar nútímabókmenntir í mars 1999
Það hefur komið fram að ég hygðist hér ræða nokkuð fræga yrðingu Steins
Steinars um að hið hefðbundna ljóðform sé nú loksins dautt og jafnframt
fjalla um sögulegar skáldsögur, það loforð mun ég svíkja. Hins vegar get ég
ekki látið hjá líða að nota svo fágætt tækifæri til að víkja talinu að annarri
bókmenntagrein sem að vísu er ekki jafn rómuð og fræg og skáldsögur og
ljóð heldur þvert á móti að sama skapi forsmáð og hrakyrt sem hún er út-
breidd og vinsæl. Það eru minningargreinar. Sem að sínu leyti eru nokkurs
konar sögulegar skáldsögur - að minnsta kosti íslenskar nútímabókmenntir.
Við sjáum daglega í Morgunblaðinu síðustu leifarnar af langri og merkri
hefð í íslenskum bókmenntum sem er mannlýsingin: sú viðleitni að texta
tilveruna, búa til bókmenntir úr lífi og starfi einstaklinganna, skapa samfellu,
einingu og reglu úr öngþveiti daglegs lífs - koma viti í starf okkar hér á land-
inu. Sagnaþættirnir sem ritaðir voru á síðustu öld og fram á síðustu ár af
ýmsum merkum fræðaþulum hér og þar um landið eru á okkar dögum for-
smáðasta bókmenntagrein Islendinga, standa lægst í virðingarstiganum.
Þeir eru sú bókmenntagrein þar sem mest alúð hefur verið lögð við
mannlýsinguna, allt frá smásmugulegum lýsingum á útliti, látbragði og
kækjum, til tilrauna að greina mikilsverð örlög í því sem hent hefur einstak-
linginn, það er að segja, fínna einhver altæk sannindi um lögmál mannlífs-
ins. Það sem einkennir mannlýsingar sagnaþáttanna er að persónan sem
þátturinn er helgaður hverju sinni þróast ekki - hún er gefm; hún hefur ein-
kennin x, y, og z og þátturinn er skrifaður til að leiða þau einkenni í ljós. Hér
mætist ofurtrú íslenska sagnaritarans á því að mögulegt sé að gera veruleik-
anum endanleg skil í rituðu máli og svo á hinn bóginn sú ramma einstak-
lingshyggja sem hér liggur í landi og kveður á um að sérhver einstaklingur sé
umfram allt einhvern veginn - duglegur, slægur, grandvar, spaugilegur. Að
maðurinn leiði sjálfan sig ekki í ljós smám saman með athöfnum sínum
heldur miklu fremur draumum sínum, að maðurinn sé ekki það sem hann
geri, heldur - eins og Þórarinn Eldjárn orðaði það: að maðurinn sé það sem
hann væri.
Hin hefðbundna minningargrein á rætur sínar í þessum sagnaþáttum.
16
www.mm.is
TMM 1999:2