Tímarit Máls og menningar - 01.06.1999, Qupperneq 54
JÓN ÓSKAR
oft á götunum í kring, og hann hafði einhvern taugakvilla sem olli því
að það komu ósjálfráðir kippir í andlit honum, og því var ekki hægt
annað en taka eftir honum. En nú voru kippirnir svo miklir í andliti
hans að ég hafði aldrei séð þá slíka fyrr.
Ég ætlaði að fara að bíta í vínarbrauðið, en ég hætti við það.
Hversvegna í andskotanum var maðurinn með þessa krampadrætti
í andlitinu? Ekki var hann að deyja.
Skyndilega gat ég ekki ráðið við það sem ég gerði. Ég stóð upp og
gekk til hans. Ég hallaði mér yfir hann og sagði:
Hversvegna ertu með þessa kippi í andlitinu?
Ha? sagði hann, einsog hann hefði ekki heyrt. Hann rétti úr sér í sæt-
inu.
Þau ert með svo mikla kippi í andlitinu, sagði ég ofurlítið hærra, en
reyndi um leið að stilla mig.
Ég get ekki gert að því, sagði hann og það hljóp roði fram í kinnar
hans.
En hvernig stendur á þessum kippum? sagði ég og reyndi að vera
vingjarnlegur í rómnum.
Ég fékk einhvern sjúkdóm, þegar ég var drengur, sagði hann.
Mamma vissi aldrei hvaða sjúkdómur það var. Það var eitthvað sem
ekki var hægt að lækna.
Söguleg þróun, sagði ég, því ég vissi ekki hvað ég var að segja.
Ha? sagði maðurinn og starði á mig.
Það verður hægt að lækna það eftir byltinguna, sagði ég.
Hann horfði á mig skilningsvana.
Ég gekk aftur að borðinu mínu, en ég gat ekki verið þarna lengur.
Ég saup einn sopa af kaffinu, stóð síðan upp frá ósnertu vínarbrauði
og gekk út, og um leið og ég gekk út sagði ég við sjálfan mig: Mamma
sagði að ég væri sterkur. Og um leið og ég gekk út sá ég föður minn
deyja og ég sá myndirnar úr fangabúðunum og ég sá ungu stúlkuna
sem hafði verið okkur, mér og föður mínum, samferða í lyftunni, eða
réttara sagt, ég sá fótleggi hennar, og nú reyndi ég ekki að bægja mynd-
inni frá mér, heldur kallaði ég hana beinlínis fram og naut hennar, þótt
ég hefði að vísu um leið nokkra sektarkennd, en ég fann ekkert annað
sem gæti forðað mér frá að hafa fyrir augum dauða og grimmd eða
krabbamein eða ókennilega sjúkdóma - krabbamein í holdi, krabba-
mein í mannlegu félagi - fann ekkert annað sem gæti fengið mig til að
52
www.mm.is
TMM 1999:2