Tímarit Máls og menningar - 01.06.1999, Side 108
GUY DE MAUPASSANT
sólin eyðir þokuslæðunni sem líður með straumnum á lygnu fljótinu,
vermdu heitir geislar hennar og nýrrar árstíðar bak þessara ástríðu-
fullu veiðimanna. Þá sagði Morissot stundum við félaga sinn : „Að
hugsa sér, en sú blíða!“. Og Sauvage svaraði: „Ég þekki ekkert betra.“
Þetta var þeim nóg til þess að þeir mátu og skildu hvor annan.
Á haustin, þegar hallaði degi, var himinninn blóðrauður, er sólin
gekk til viðar, en á vatnsfletinum spegluðust skýjamyndir í skarlats-
klæðum. Fljótið varð purpurarautt og við logandi, gullroðinn sjón-
deildarhringinn urðu vinirnir tveir rauðir sem eldur, en sólgylltum
bjarma brá á trén sem bærðust eins og að vetri. Þá leit Sauvage bros-
andi á Morissot og sagði: „En sú dýrð!“ Án þess að missa sjónar á flot-
inu á færinu var Morissot vanur að svara frá sér numinn: „Þetta er
eitthvað annað en breiðstrætin, eða hvað finnst þér?“
Eftir að þeir höfðu borið kennsl hvor á annan, tókust þeir innilega í
hendur, mjög hrærðir yfir að hittast við svo gjörólíkar aðstæður frá því
sem áður var. Sauvage andvarpaði og muldraði: „Að hugsa sér, allt á tjá
og tundri!“
Morissot stundi daufur í dálkinn: „En þvílíkt dýrðarveður. Þetta er
fýrsti góðviðrisdagurinn á árinu“. Himinninn var í raun heiðblár og
fullur af birtu og ljósi.
Þeir héldu af stað og gengu hlið við hlið, dreymandi og daprir í
bragði. Morissot tók aftur til máls: „Hvað með stangveiðina ? En hvað
við eigum góðar minningar um hana“.
Sauvage svaraði: „Hvenær förum við þangað aftur?“
Þeir fóru inn á lítið kaffihús, fengu sér einn snaps af absinth-brenni-
víni, síðan héldu þeir áfram eftir gangstéttinni.
Skyndilega stansaði Morissot og sagði: „Eigum við að fá okkur enn
einn gráan?“ Sauvage kinkaði kolli og sagði: „Eins og þú vilt“. Og þeir
fóru inn á aðra krá. Þegar þeir komu út aftur voru þeir kenndir og
ruglaðir eins og gerist þegar menn drekka áfengi á fastandi maga. Það
var milt veður og golan lék um vanga þeirra.
Sauvage lyftist allur í blíðunni, stansaði og sagði:
- En, ef við færum nú þangað ?
- Hvert þá ?
- Auðvitað að veiða!
- En, hvar ?
106
www.mm.is
TMM 1999:2