Tímarit Máls og menningar - 01.09.2000, Side 78
ÁRNl BERGMANN
viðtökur í Þjóðviljanum. Gunnar Benediktsson sakaði þá höfund þessarar
greinar, sem um þær mundir var aðalgagnrýnandi þess blaðs, um að styðja
„bókmenntalega afsiðun", um að „rugla um fyrir alþýðu manna, slæva til-
fmningu hennar fyrir góðum bókmenntum, rugla skilning hennar á fyrir-
bærum lífsins.“ (Þjv. 9.04.1970).
Og eru þá fjölmargar sögur ósagðar um svipuð efni.
VII
Umkvartanir um að bókmenntir séu hafðar að pólitísku bitbeini eru fyrst og
síðast tengdar þeirri kröfu um afstöðubókmenntir sem öðru hvoru hefur
verið nefnd. Menn segja einatt að frekja og yfirgangur vinstrimanna hafi
einkum tengst þessari kröfu: þeir vilji með henni segja öðrum fyrir um hvað
og hvernig skrifa skuli. Þá er oftast vitnað til Kristins E. Andréssonar sem á
upphafsárum Rauðra penna var svo öruggur í trausti sínu á nýfundinn
marxisma að hann taldi að kommúnistar einir gætu náð tökum á samtíðinni
í skáldskap.39 Þetta stef fór hann með öðru hvoru á sínum ferli. í ritdómi ffá
1950 telur hann að í afstöðu manna til sósíalisma komi það fram hvort þeir
hafi hugrekki „til að fýlgja því sem menn vita að er rétt.“40 í grein um „fs-
lenska ljóðagerð árið 1966“ finnst honum að þeir sem ekki átti sig á þróun
heimsins til sósíalisma “verða blindir á allt annað, líka það hvernig ljóð skuli
yrkja.“41 Kannski ekki nema von að höfundar sem voru á öðru máli fyrtust
við: látið var að því liggja að þeir væru úreltir, skilningssljóir eða hugdeigir.
En Kristinn sjálfur fylgdi ekki nærri alltaf effir slíkum viðhorfum - eins og
áður var rakið þegar sagt var frá dálæti hans á Gunnari Gunnarssyni og
mætti bæta við tilvísunum í aðdáun hans á Einari Benediktssyni og drjúga
virðingu fýrir hinum íhaldssama skáldbónda og andstæðingi Sjálfstæðs
fólks, Guðmundi frá Sandi. Kristinn er oftar en ekki meira en sáttur við
skáldskap sem er fjarri vinstriboðskap en fullnægir trú hans á íslenska
menningarviðleitni, eflir íslendinga til að bera höfuðið hátt sem þjóð, því
vissulega var hann í senn alþjóðlega hugsandi kommúnisti og rómantískur
þjóðernissinni.42 Og viðhorf Kristins verða ekki kennd við „ofsóknir," þau
eru hans persónulega útfærsla á gömlum og nýjum draumi um áhrifamátt
bókmennta. Hans viðhorf voru heldur ekki einráð meðal vinstrisinna, þeim
var andmælt, m.a. af nýrri kynslóð skálda eins og Birtingsmönnum og eftir-
maður Kristins við ritstjórn Tímarits Máls og menningar, Sigfús Daðason,
tók spurningar sem lutu að afstöðubókmenntum öðrum tökum en hann.
Krafa eða von um afstöðubókmenntir er sífellt að koma upp. Þeir tímar
komu þegar skáld töldu sjálfsagt að yrkja frelsiskvæði eða „taka vandamál til
meðferðar“ (Brandes) - á öðrum tímum er lögð höfuðáhersla á óháðan
76
malogmenning.is
TMM 2000:3