Tímarit Máls og menningar - 01.09.2000, Page 110
Úlfar Þormóðsson
Að gefnu tilefni
Herra ritstjóri!
Þú skrifar í eftirmála að síðasta hefti TMM að grein eftir Aðalstein Ingólfsson
listfræðing sé fróðlegt innlegg í svokallað málverkafölsunarmál. í greininni
er sægur af staðreyndavillum (um ártöl, innherjaviðskipti, eigendasögur,
starfshætti Gallerís Borgar og sviksemi aðstandenda þess, um lögin í landinu
og fleira og fleira). Höfundur setur frarn fjölmargar rangar fullyrðingar og
dregur af þeim ályktanir sem óhjákvæmilega verða vitlausar; hann er að falsa
listasöguna og telst greinin fróðleg af þeim sökum.
Undangengin misseri hafa slíkir fróðleiksmenn farið mikinn í fjölmiðlum
og látið að því liggja að þeir viti hverjir hafi falsað eða staðið fyrir fölsunum á
allt að 900 málverkum. Þeir hylma yfir með þrjótunum, halda nöfnum þeirra
leyndum en beita þess í stað elstu aðferðum rógsiðjunnar; nafngreina menn í
litlu samhengi við afbrotið með það fyrir augum að lesandinn festi morkinn
glæp á þeirra skinn. Greinar þeirra í 1. og 2. hefti þessa árgangs TMM eru af
slíkum meiði.
Við fyrri störf mín neyddist ég oft til að leiðrétta orð og gerðir fróðleiks-
manna án minnstu tafar til þess að draga úr tjóni sem ill verk valda. Nú háttar
ekki lengur þannig til hjá mér og þótt enn sé nauðsynlegt að rétta ræður
þeirra mun ég ekki gera það hér og nú; hvað bíður síns tíma. En lesendum
TMM og öðrum þeim sem vilja vita hvað sannara er, bendi ég á að hægt er að
læra um upphaf og eðli þessara mála í bókinni Eignasaga 45 eftir undirritað-
an, útg. af höf. 1993; hún er uppseld, en er til á söfnum. Einnig er hægt að
fræðast vel um málið allt í ágripi af hæstaréttardómi í svokölluðu Pressumáli
sem kærendur og málaliðar þeirra vitna ítrekað ranglega til. Ágripið er um
300 blaðsíður og er hægt að fá að lesa það í Hæstarétti, en kaupa ljósrit ella.
Það er von mín að TMM verði helgað menningarmálum að nýju.
Reykjavík, 19. júní 2000
Úlfar Þormóðsson
108
malogmenning.is
TMM 2000:3