Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2006, Blaðsíða 65
60
Tímarit um menntarannsóknir, 3. árgangur 2006
Er „menningarlæsi“ ungs fólks að breytast?
Athugun á lestri og tómstundavenjum nemenda í 10. bekk
Guðný Guðbjörnsdóttir
Háskóla Íslands
Í rannsókn þessari eru kannaðar lestrar- og tómstundavenjur ungs fólks árið 2005. Markmiðið er
að skoða menningarlæsi nemenda í 10. bekk og bera niðurstöðurnar saman við fyrri rannsóknir
á sama aldurshópi og við sambærilega athugun á eldra fólki frá 2005. Spurningalisti var lagður
fyrir í tveimur skólum í Reykjavík, 107 nemendur alls. Niðurstöðurnar benda til að nemendur
lesi minna í bókum 2005 en jafnaldrar þeirra 1993 og 1965 og að notkun þeirra á internetinu og
tölvuleikjum í frítíma sínum, sé mun meiri en fólks á þrítugs- og fimmtugsaldri og jafnaldra þeirra
áður. Þeim fjölgar á báðum kynjum sem aldrei eða mjög sjaldan lesa tiltekna bókaflokka. Þá
kom fram vísbending um að þekking ungs fólks á bókmenntum fari minnkandi. Kynjamunurinn
í lestri er nokkur, stúlkum í vil, en þó minni en áður; lítill og ekki marktækur í internetnotkun
en tölvuleikjaiðkun drengja er marktækt meiri en stúlkna. Vinsælustu bækurnar hafa verið
kvikmyndaðar og eftirminnilegar bókapersónur eru yfirleitt karlkyns. Unga fólkið leggur mikið
upp úr vali, að fólk lesi eða geri það sem það hefur áhuga á og það telur frekar en fullorðnir að
áhugi á íslenskri menningu fari þverrandi. Þó að unga kynslóðin lesi minna af bókum en áður og
noti tölvurnar mikið þykir vafasamt nú að fullyrða um afleiðingarnar til framtíðar. Mikilvægt er
því að rannsaka betur þá gerð af læsi, sem nýju miðlarnir skapa, og að skólinn sé í takt við þær
breytingar. Hugtakið menningarlæsi þarf að endurskilgreina eða víkka þannig að það nái til læsis
á alla viðkomandi miðla og til þekkingar sem stuðlar að virkni í samfélaginu, bæði heima fyrir og
alþjóðlega. Vonast er til að rannsóknin geti nýst menntamálayfirvöldum og kennurum í viðleitni
þeirra til að efla læsi og menntun ungs fólks á Íslandi á tímum tæknibreytinga og hnattvæðingar.
Tímarit um menntarannsóknir, 3. árgangur 2006, 60–81
Hagnýtt gildi: Greinin hefur hagnýtt gildi fyrir menntamálayfirvöld og kennara, bæði varðandi skipan
námskrár og kennsluaðferðir sem eiga að efla læsi og menntun ungs fólks, ekki síst drengja. Þá er bent
á leiðir til að miðla bókmenningararfi þjóðarinnar í skólum á tímum tæknibreytinga og hnattvæðingar. Í
greininni er varpað ljósi á lestur og tómstundavenjur ungs fólks í 10. bekk í samanburði við jafnaldra þeirra
árin 1993 og 1965 og fullorðið fólk á þrítugs og fimmtugsaldri nú. Minnkandi bóklestur og aukin tölvu og
internetnotkun bendir til þess að lestur og læsi tengist í vaxandi mæli tölvum og öðrum samskiptamiðlum,
en það gæti skapað nýja færni sem þarf að fylgjast með og meta í skólum.
– Shi Jinrui er heiti sem foreldrar í Japan nota um okkar kynslóð ungs fólks. Það
merkir ný manngerð (e. New humankind). Þau halda því fram að við séum svo ólík
öðrum kynslóðum, það sé eins og að bera saman krít og ost. Við hugsum, klæðum
okkur og eyðum frítíma okkur öðruvísi … Við erum í þróun, bylting, afl sem þarf að
viðurkenna. Við erum Shi Jinrui og komin til að vera.
Daniel Wilks (2002, bls. 6)