Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2006, Blaðsíða 87
82
Tímarit um menntarannsóknir, 3. árgangur 2006
Á hverju byggir þú þetta? Hvar eru gögnin?
Viðtal við dr. Gerði G. Óskarsdóttur, fv. sviðsstjóra Menntasviðs og fræðslustjóra
Reykjavíkur, um nýtingu rannsóknarniðurstaðna í stefnumörkun og þróunarstarfi
Ragnar F. Ólafsson, Námsmatsstofnun og Kristín Jónsdóttir, Kennaraháskóla Íslands
Ferill: Gerður G. Óskarsdóttir hefur doktorspróf í menntunarfræðum, með sérsvið í stjórnun menntamála
og stefnumörkun, frá Kaliforníuháskóla í Berkeley sem er einn af virtustu háskólum í Bandaríkjunum. Hún
hefur meistarapróf frá Bostonháskóla í námsráðgjöf og B.A.-próf í landafræði og þýsku frá Háskóla Íslands,
auk kennslufræða og kennaraprófs frá Kennaraskóla Íslands. Gerður hefur stundað rannsóknir á sviði
menntamála um árabil og hafa rannsóknir hennar m.a. snúist um skil menntunar og atvinnulífs, brottfall úr
framhaldsskóla, færnikröfur í störfum og námsráðgjöf. Nýlega lét Gerður af störfum hjá Reykjavíkurborg
eftir rúmlega 10 ára starf, nú síðast sem sviðsstjóri Menntasviðs Reykjavíkurborgar um eins og hálfs árs
skeið, en í því fólst að hún var yfirmaður allra menntamála á vegum borgarinnar - leikskóla, grunnskóla,
skólahljómsveita og fullorðinsfræðslu. Áður var Gerður fræðslustjóri Reykjavíkur í 9 ár. Á þessum
árum hefur Gerður verið í forystu um stórstíga framþróun grunnskóla Reykjavíkur bæði hvað varðar
ytri umgjörð og innra starf. Hún stýrði m.a. umfangsmiklu samráði og samstarfi við hagsmunaaðila um
stefnumörkun borgarinnar í menntamálum og átti frumkvæði að því að safna tölfræðilegum upplýsingum
um skólastarfið, m.a. með könnunum, úttektum og rannsóknum, svo byggja mætti ákvarðanir um
framþróun á grunni upplýsinga. Gerður hafði áður víðtæka reynslu af störfum innan menntakerfisins.
Hún var kennari á grunnskóla- og framhaldsskólastigi, í fullorðinsfræðslu og í háskóla. Auk þess var hún
um árabil skólastjóri og skólameistari gagnfræða- og framhaldsskóla í Neskaupstað, sem síðar nefndist
Verkmenntaskóli Austurlands, og var kennslustjóri í kennslufræði við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands.
Um tæplega þriggja ára skeið starfaði Gerður í menntamálaráðuneytinu sem ráðgjafi menntamálaráðherra
og stýrði þá m.a. vinnu við stefnumörkun um þróun menntamála á öllum skólastigum, tók þátt í smíði laga
og reglugerða, m.a. gerð fyrstu laga um leikskóla og endurskoðun grunnskólalaga, og stýrði nefndum um
framhaldsskóla og iðnmenntun. Jafnhliða þessum störfum hefur Gerður stýrt eða setið í fjölda nefnda sem
fjallað hafa um ýmsa þætti menntamála, allt frá leikskólum til háskóla og fullorðinsfræðslu, og verið virk
í félagsstarfi kennara. Hún hefur kennt á námskeiðum fyrir kennara, sinnt nýbreytni- og þróunarstörfum í
skólum og stundað rannsóknir og mat á skólastarfi. Fjöldi greina um menntamál hefur birst eftir Gerði í
blöðum og tímaritum, hún hefur gefið út námsefni og bækur, m.a. um niðurstöður rannsókna, og flutt fjölda
fyrirlestra um menntamál og niðurstöður rannsókna sinna á ráðstefnum og þingum innan lands og utan.
Um síðustu áramót lauk dr. Gerður G. Óskarsdóttir störfum hjá Reykjavíkurborg eftir 10 ára starf
sem æðsti yfirmaður menntamála í borginni. Á þeim vettvangi beitti hún sér meðal annars fyrir
nýtingu niðurstaðna úr könnunum og rannsóknum við ákvarðanatöku í menntamálum. Tímarit
um menntarannsóknir hefur það hlutverk öðrum þræði að „benda á leiðir til þess að tryggja
að niðurstöður menntarannsókna hafi gildi í stefnumótun og starfi“. Á þessum tímamótum var
því tilefni til að spyrja Gerði út í reynsluna af því að tengja saman rannsóknir og stefnumótun í
skólastarfi, auk þess sem ýmislegt annað markvert bar á góma.
Tímarit um menntarannsóknir, 3. árgangur 2006, 82–95