Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2006, Blaðsíða 50
45
Tímarit um menntarannsóknir, 3. árgangur 2006
kvenleika en hafa ekki hlotið vægi í hefð-
bundnum skilgreiningum á auðmagni. Það er
sú þekking, tengsl og hæfni á tilfinningasviðinu
sem mikils er metin innan ákveðins hóps eða
tengslanets og einkennist a.m.k. að hluta af
tilfinningaböndum. Ólíkt öðrum tegundum
auðmagns hefur þessi tegund fyrst og fremst
verið tengd einkasviðinu. Reay hefur nýtt
tilfinningaauðmagn í rannsóknum sínum á
foreldrasamstarfi og þátttöku mæðra í skólum
og skólastarfi barna sinna. Færni þeirra á
þessum vettvangi virðist hafa ótvíræð áhrif
á gengi barna þeirra og virðingu og vægi
þeirra sjálfra í skólastarfinu og á sinn þátt
í endursköpun stéttakerfisins. Það er því
órjúfanlega tengt öðrum tegundum auðmagns.
Ein rannsókn hefur verið gerð hér á landi
með það að markmiði að flokka nemendur
í hópa eftir veruhætti (embodied state eða
habitus) út frá kenningum Bourdieus, en það
er rannsókn Guðbjargar Vilhjálmsdóttur (2003;
2005) sem hún staðfærði fyrir Ísland. Úrtak
hennar er úr hópi 15 ára unglinga á Íslandi.
Hún greindi nemendur í fimm ólíka hópa eftir
„smekk þeirra á listrænum afurðum og annarri
tómstundaiðju“ og skoðaði niðurstöðurnar
eftir kyni, stétt og búsetu. Fáir flokkuðust í
hóp II: Klassísk tónlist og ljóðlistarunnendur
eða 87/911 og það sama má segja um hóp
V: Vísindi og bókmenntir eða 155/911 en
þess konar smekkur telst samkvæmt ráðandi
skilgreiningum gefa mesta virðingu innan
skólakerfisins. Í hópi II voru strákar 71 af
þessum 87 (87%) og 72% af hópnum voru
af höfuðborgarsvæðinu. Hópurinn var mjög
vandlátur á tónlist og bókmenntir; hlustaði á
klassíska tónlist og jazz, las ljóð og lesefni eins
og fræðibækur og um 40% spiluðu á hljóðfæri.
Hlutfall drengja í hópi V var 135/155 eða 87%.
Þessi hópur horfði á vísindaþætti í sjónvarpinu,
las grínbækur, vísindaskáldsögur, tölvublöð,
skáldsögur og Íslendingasögur svo eitthvað
sé nefnt. Eingöngu nemendur af íslenskum
uppruna tóku þátt í rannsókninni. Munur á
veruháttarhópum kemur hins vegar mun skýrar
fram þegar spurt er um áhuga á ákv. störfum
eða menntaleiðum.
Þegar önnur hlið menningarauðmagns
er skoðuð, þ.e. hin hlutbundna, sýna
bandarískar rannsóknir að stelpur eru „meiri“
menningarneytendur en strákar sem felst
m.a. í því að þær fara oftar á bókasafnið
og sækja frekar danstíma og formlegt
tónlistarnám (DiMaggio, 1982; Kaufman
og Gabler, 2004). Íslenskar rannsóknir á
grunnskólanemendum sýna að stelpur sækja
frekar formlegt tónlistarnám, leiklistar- eða
myndlistarnámskeið og taka einnig meiri þátt í
tómstundastarfi í grunnskólanum en strákar æfa
frekar íþróttir (fyrir utan fimleika), hvort heldur
með íþróttafélögum, í frímínútum í skólanum
eða á eigin vegum (Svandís Nína Jónsdóttir,
Hera Hallbera Björnsdóttir, Bryndís Björk
Ásgeirsdóttir og Inga Dóra Sigfúsdóttir, 2002;
Þórólfur Þórlindsson, Kjartan Ólafsson, Viðar
Halldórsson og Inga Dóra Sigfúsdóttir, 2000). Í
mælingum á menningarauðmagni í PISA 2000
kom einnig í ljós munur á menningarþátttöku
íslenskra stelpna og stráka í þessum skilningi,
þ.e. stelpur fóru frekar í leikhús, á söfn eða á
bókasafnið (Alþjóðlegur gagnagrunnur PISA
2000,). Samkvæmt þessu virðast hefðbundnir
mælikvarðar á hlutbundið menningarauðmagn
lýsa betur menningarþátttöku stelpna en
stráka.
Þegar stofnanabundna víddin er skoðuð
hafa rannsóknir sýnt að stelpur sinna betur
heimanámi (Svandís Nína Jónsdóttir o.fl.,
2002) og fá hærri einkunnir við lok grunnskóla
(PISA, 2004; Sigurgrímur Skúlason, Finnbogi
Gunnarsson, Rósa Einarsdóttir og Inga
Úlfsdóttir, 2002) og í framhaldsskóla (Jón Torfi
Jónasson og Kristjana Stella Blöndal, 2002) og
fleiri stelpur útskrifast með háskólagráðu. Þó
að þær hafi meira stofnanabundið auðmagn í
formi einkunna og gráða virðist það ekki
umbreytast með sama hagnaði í efnahagslegt
auðmagn og hjá strákum (Þorgerður Einarsdóttir
og Berglind Rós Magnúsdóttir, 2005).
Því má segja að þeir mælikvarðar sem
hafa verið notaðir til að meta mismunandi
hliðar menningarauðmagns gefi misvísandi
niðurstöður um félags- og námsstöðu
kynjanna.
Námshegðun leiðtoga í unglingabekk