Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2006, Blaðsíða 99
94
Tímarit um menntarannsóknir, 3. árgangur 2006
sagt mér að þeir hafi upplifað vinnustaðinn
sem alvöru lærdómssamfélag.
FRAMTÍÐARHORFUR
Hvað hefur þú á prjónunum núna?
Þegar ákveðið var hjá borginni að aðgreina
aftur yfirstjórn leik- og grunnskóla gerði ég
mér grein fyrir því að ég kærði mig ekki um
að stýra breytingum til fyrra horfs, en ég stýrði
sameiningu yfirstjórnar leik- og grunnskóla
fyrir einu og hálfu ári. Það væri eðlilegast að
aðrir gerðu það.
Þá kom fljótt upp í hugann að mig langaði
aftur að fara að stunda rannsóknir og fljótlega
fann ég að áhuginn beindist að því að skoða
áfram skil skólastiga sem ég hef lengi haft
mikinn áhuga á, eins og fram hefur komið.
Mig langar að halda áfram með þetta svið, og
nú langar mig til að bæta við skilunum milli
leikskóla og grunnskóla.
Ég fékk mikinn áhuga á leikskólanum þegar
ég var yfirmaður hans í eitt og hálft ár, þar fékk
ég nýtt tækifæri. Ég hafði áður kennt og verið
stjórnandi á öllum skólastigum nema leikskóla.
Nú bætti ég leikskólanum við. Sem yfirmaður
leikskólanna heimsótti ég marga þeirra. Það
kom mér á óvart hvað mikið er verið að kenna
í leikskólunum – og alltaf í gegnum leikinn,
sem er frábær aðferð. Þróunin hefur verið
svo hröð. Leikskóladvöl er nú í boði fyrir öll
börn frá 18 mánaða aldri, allan daginn. Fyrir
um 10 árum síðan áttu flest börn aðeins kost
á leikskóladvöl hálfan daginn. Þegar börnin
koma nú í grunnskólann hafa þau verið fjögur
ár í leikskóla, allan daginn. Þetta er gerbreytt
staða. Ég veit ekki hvernig grunnskólinn hefur
mætt þessum breytingum. Mig langar að skoða
nánar hvað börn eru að læra í leikskóla og
hvernig það nýtist þeim í grunnskólanum.
Það er markviss kennsla og uppeldi sem
fer fram í leikskólanum og nú læra börn þar
efni sem ég kenndi sjö ára nemendum mínum
í grunnskóla, þegar ég var að byrja að kenna
fyrir mörgum árum. Ég hef á starfsferli mínum
fylgst með því hvernig inntak náms hefur færst
frá framhaldsskóla niður í grunnskóla og frá
grunnskóla niður í leikskóla. Tungumálanámið
er gott dæmi. Ég byrjaði að læra ensku 14 ára,
börnin mín 12 ára, en barnabarnið 9 ára. Það á
sér stað mikið námsrek niður á við. Algebra er
nú kennd í grunnskóla sem ég lærði fyrst í MR
og áður var ekki eins mikil bókmenntakennsla
í grunnskólanum og núna. Ég hef mikinn
áhuga á að rannsaka þessa þróun.
Þegar ég sagði upp sviðsstjórastarfinu kynnti
ég borgarstjóra þessar hugmyndir mínar og
tjáði honum jafnframt að ég hefði áhuga á
að vinna rannsókn fyrir borgina á námi við
skil leikskóla og grunnskóla annars vegar og
skil grunnskóla og framhaldsskóla hins vegar.
Hann tók því afar vel. Ég hef líka áhuga á að
sinna ráðgjöf á sviði menntamála, svo sem
við einstaka skóla eða sveitarfélög. Formaður
menntaráðs Reykjavíkur óskaði eftir því að ég
yrði ráðgjafi ráðsins. Svo er ég nú að tengjast
verkefnum í Háskóla Íslands og er til í meira
af því tagi.
Heldur þú að þetta starf undanfarin 10 ár
muni móta þig mikið sem rannsakanda?
Alveg örugglega. Bakgrunnur minn úr
háskólanum, kennsla kennaranema og
rannsóknir, nýttist mér mjög vel í starfi
fræðslustjóra til viðbótar við störf mín áður
sem kennari og skólastjóri bæði á grunn-
og framhaldsskólastigi og ráðgjafi ráðherra í
menntamálaráðuneytinu. Ég veit að þessi 10
undanfarin ár munu nýtast mér gríðarlega vel í
rannsóknum ef ég kemst á skrið í þeim.
RÁÐ TIL EFTIRMANNA
Hefðir þú einhver góð ráð handa eftirmanni
þínum ef eftir þeim væri leitað?
Mér hefur fundist skipta miklu máli að vera
í góðu sambandi við skólastjórana og hvetja
þá og styðja sem leiðtoga sinna skóla. Þeir
eru í mjög erfiðu og krefjandi starfi, efstir
á toppnum. Það getur verið kalt á toppnum,
kaldara en áður var. Skólastjórar grunnskólanna
í Reykjavík eru gríðarlega sterkur hópur og eru
að vinna frábært starf með sínu góða fólki.
Ég reyndi að vinna að stefnumótun í
Viðtal við Gerði G. Óskarsdóttur