Gripla - 01.01.1995, Page 9
GUÐRÚN ÁSA GRÍMSDÓTTIR
ÚR TYRKJAVELDI OG BRÉFABÓKUM
Ókennd þjóð úr öðrum löndum
útbúin með vopnin þrenn
grípa féð með grimmum höndum
og ganga yfir landsins menn
varnarlausir vér því stöndum
víst í fári allir senn.'
I. Sögulegt ágrip
Á 16. öld náði hið víðlenda ríki Tyrkjasoldáns, sem sat í Istanbúl, yfir
Litlu-Asíu og Balkanskaga, löndin sunnan Dónár allt að Belgrad, enn-
fremur um stóran hluta Ungverjalands, Transilvaníu, Moldavíu og
Valakíu og fleiri héruð við Svartahaf og á Krímskaga; ennfremur réði
soldán fyrir löndum fyrir botni Miðjarðarhafs og við Rauðahaf og
Persaflóa og héruð á norðurströnd Afríku allt að Marokkó voru á
valdi hans. Ríki Tyrkjasoldáns var algert einveldi, grundvallað á vinnu-
afli ánauðugra og víðfeðmu skattgreiðslukerfi sem stóð undir her-
kostnaði sem leiddi af stöðugum landvinningum í heilögu stríði þar
sem hið sigraða fólk var unnvörpum tekið til fanga og gert að ánauð-
ugu vinnuafli væri það annarrar trúar en múhameðstrúar. Riddaraliði
og sjóher var haldið uppi með því að hermönnum var úthlutað ákveðn-
um héruðum að léni í nýunnu landi sem bændur ræktuðu áfram, en
ákveðinn hluti jarðarágóðans fór til uppihalds hermönnum úr hverju
héraði. Ánauðugum var haldið í hermannastétt, þeir sátu undir árum á
galeiðum og sterkasta herlið soldáns voru janitsjarar, sem voru af
kristnum uppruna, en hafði verið smalað saman ungum drengjum í
Evrópu, Balkanlöndum, Grikklandi og Ungverjalandi af útsendurum
úr soldáns höll, teknir frá foreldrum sínum og aldir upp og þjálfaðir til
þess að verða fótgönguliðar í her hans.
1 Úr kvæðinu: Árgalinn ortur af síra Ólafi Einarssyni 1627, prentað í: Ein lijtil
Psalma og Visna Book. [Útg. Hálfdan Einarsson], Hólum 1757, II F7-G2.