Gripla - 01.01.1995, Qupperneq 100
98
GRIPLA
at maðr kom at honum ok mælti: „Þar liggr þú, Hallfreðr, ok
heldr óvarliga; fœr þú á brott bú þitt ok vestr yfir Lagarfliót; þar
er heill þín q>ll“. Eptir þat vaknar hann ok fœrir bú sitt út yfir
Rangá í Tungu, þar sem síðan heitir á HallfreðarstQðum, ok bió
þar til elli. En honum varð þar eptir gQltr ok hafr. Ok hinn sama
dag sem Hallfreðr var í brott, hlióp skriða á húsin, ok týndusk
þar þessir gripir, ok því heitir þat síðan í Geitdal (1. k.).1
Draumurinn útskýrir ekki aðeins bólfestu Hallfreðar að Hallfreðar-
stöðum, heldur vegur hann þungt í heildartúlkun sögunnar.
Landnámu og Hrafnkels sögu greinir á um tilurð landnáms í Fljóts-
dalshéraði. í Hrafnkels sögu er landnámsmaðurinn sagður faðir Hrafn-
kels, Hallfreður nokkur sem kom af Noregi, en í Landnámu nemur
Hrafnkell Hrafnsson land í Hrafnkelsdal (S283, H244). Skýra mætti
þennan rugling á nöfnum landnámsmanna með því að munnmælafrá-
sagnir liggi að baki (Óskar Halldórsson 1976:31-3). Á hitt ber þó að
líta að mikilvæg líkindi eru með þeim, þar sem víkur að átrúnaði ættar-
innar. í Landnámu er ekki getið berum orðum um Freysdýrkun, en þar
má þó greina duldar tilvísanir til slíkrar dýrkunar.
Aðvörun draummannsins afstýrir miklum mannskaða í Geitdal, en
eftir verða göltur og hafur er tapast undir skriðu sem féll á húsin. Þær
skepnur ríma við dýr Freys, en í Gylfaginningu segir að Freyr æki í
kerru með gelti sínum (34. k.). A og D gerð Hrafnkels sögu (gul geit
B, og ennt geit C) og Landnáma eru samhljóða um að göltur hverfi
undir skriðunni, en í Landnámu er sagt að griðungur tapist í stað haf-
urs sögunnar. Hugsanlegt er að dýrin vitni um uppruna þessarar sagnar
í heiðni (Meulengracht Sprensen 1992:64) og varðveiti þannig minn-
ingu um Freysdýrkun landnámsmannsins. Athuganir Einars Pálssonar
benda til þess að arfsagnir um Freysdýrkun á Austurlandi geti legið til
grundvallar sögunni (1988:214-15). Skepnurnar eru þó ekki óyggjandi
vísbending um forna arfsögn, því að höfundur sem ritaði eða sagði
sögu á þrettándu eða fjórtándu öld hefur einnig kunnað að beita slík-
1 Vitnað er í greininni í útgáfu Jóns Helgasonar á Hrafnkels sögu frá árinu 1959 og
getið um kaflanúmer. Sagan er varðveitt í fjórum handritum, auðmerktum með bókstöf-
unum A, B, C og D. Getið er um mikilvæg lesbrigði milli haiidrita. Útgáfa Svarts á hvítu
á D-gerð sögunnar frá 1987, þar sem farið er eftir próförk Peters Springborgs að fyrir-
hugaðri útgáfu Árnastofnunar í Kaupmannahöfn, og útgáfa Jóns Jóhannessonar á sög-
unni í íslenzkum fornritum XI. voru ennfremur hafðar til hliðsjónar.