Gripla - 01.01.1995, Page 106
104
GRIPLA
gamla heim og átrúnað fortíðarinnar, þó að hann hafi ekki enn gengið
af Freystrúnni.
Það er umhugsunarefni hvort þessir undarlegu atburðir sögunnar
lýsa einvörðungu umskiptum í lífi Hrafnkels eða eru fremur táknmynd
um stærri veruleika, þ.e. þau raunverulegu trúskipti sem áttu sér stað á
íslandi við kristnitökuna. Píslin er svo merkingarþrungin í táknmynda-
forða kaþólsks manns, að freistandi er að velta þessari hugmynd fyrir
sér. Djöfullinn tekur jafnt á sig mynd norrænna heiðinna goða sem
grískra og rómverskra í miðaldaritum (Foote 1984:97-99). Hér er heið-
inn höfðingi hreinsaður af Frey - eða fjandanum sjálfum - en valds-
mennska hans breytist þó lítið fyrir vikið. Hann snýst ekki til kristni
heldur til trúar á mátt sinn og megin. Sá átrúnaður leit engan guð æðri
manninum; hógværð og undirgefni heitrar trúar var horfin Hrafnkatli
og hann verður jafnvel voldugri en fyrr. Vígaferli hans breytast úr
hvatlegum einvígjum í hernað þar sem hönd hans sést ekki á neinu
vopni. Hinn endurborni Hrafnkell er sagður mildari þegar Freyr hefur
vikið úr lífi hans, en undir niðri slær hjarta hefndar og fornrar siðferð-
iskenndar. Fátt hefur breyst að leiðarlokum í sögu Hrafnkels, rétt eins
og siðferði höfðingja breyttist lítið á íslandi þó að Kristur væri orðinn
förunautur þeirra um 1000. Undir lok sögu situr Sámur aftur að Leik-
skálum og Hrafnkell að Aðalbóli.
4
Hestar tengdust Freysdýrkun í öndverðu, líkt og frjósemisdýrkun í
öðrum heimshlutum. Óþarfi er að fjölyrða hér um upplag Freyfaxa
(Aslak Liestpl 1945; Knut Liestpl 1946). Hvergi í íslendingasögum er
að finna frásögn af svo innilegu sambandi manns og hests eins og í
Hrafnkels sögu. Sagan af Einari minnir óneitanlega á ævintýrasögur
sem segja frá ‘den verbotenen Dingen’, eins og bent hefur verið á
(Hrafnkels saga 1952:17). Einnig má víða finna slíkar freistingarfrá-
sagnir í ritningunni (1. Mós: 3; Hermann Pálsson 1988:68-9).
Afdrif hestsins vekja hins vegar forvitni. Þjóstarssynir, þeir Þorgeir
og Þorkell, eru einnig að verki þegar hesturinn er drepinn. Freyfaxi er
leiddur að þverhnípi, augu hans hulin og honum steypt í djúpan hyl.
Það er torvelt að finna samskonar meðferð á hesti í íslenskum fornsög-
um. í Nýja testamentinu er hins vegar sagt frá er Jesús hreinsar mann í
Gerasena af óhreinum öndum, en leyfir öndunum síðan að hlaupa í