Gripla - 01.01.1995, Page 213
KÖTLUDRAUMUR
211
framfylgja honum en þegar kom fram á 17. öld var tekið að beita hon-
um miskunnarlaust (Þorgeir Kjartansson 1982:5; Davíð Þór Björgvins-
son 1984:18-19). Á áratugnum 1641-1650 „má segja að 3. til 4. hvern
dag hafi par lent í höndum réttvísinnar“ (Þorgeir Kjartansson 1982:10)
fyrir ólöglegt kynlíf, og eru það 92,5% af skráðum afbrotamönnum á
því tímabili (s.rit:10—11).
Á undanförnum árum hafa Eiríkur Þorláksson, Þorgeir Kjartansson,
Davíð Þór Björgvinsson, Inga Huld Hákonardóttir og Már Jónsson
skrifað mest um þá „glæpi“ sem Stóridómur náði til, og viðbrögð fólks
sem varð að réttdræpum sakamönnum eftir setningu hans og reyndi
eðlilega að hylma yfir „glæpi“ sína. Af þeim gögnum sem þau hafa
dregið fram er ljóst að landsmönnum hefur orðið mikið um þessa
ströngu löggjöf. Guðmundur Andrésson gekk svo langt að rita ádeilu á
Stóradóm, sem hann hafði sjálfur verið dæmdur eftir, og sendi Arn-
grími lærða ritgerð sína 13. júní 1648, DISCVRSVS OPPOSITIVUS ed-
ur gagnstœd yfferferd l0griettunnar dom titils sem geingid heffur a Al-
þingi Anno 1564. Arngrímur dó nokkrum dögum síðar og ritgerðin
komst í hendur yfirvalda sem sendu Guðmund í Bláturn árið eftir.
Þaðan var honum sleppt fljótlega, meðal annars fyrir atbeina Ole
Worm, en bannað að snúa aftur til íslands. Hann settist því að við
fræðistörf í Kaupmannahöfn til dauðadags 1654 (Jakob Benediktsson
1948 a:xii-xviii). Þrátt fyrir harkaleg viðbrögð yfirvalda fékk gagnrýni
Guðmundar mikinn hljómgrunn með þjóðinni eins og fjöldi uppskrifta
á riti hans sýnir (s.rit:xliv-lv). Og Stóridómur hjó nærri sjálfum Árna
Magnússyni því að Jón bróðir hans var margdæmdur fyrir síendurtekin
hórdómsbrot; loks til dauða árið 1730 en var náðaður af konungi.
Katla í Kötludraumi hefði verið sakakona samkvæmt ákvæðum
Stóradóms og því er áhugavert að kvæðið skuli koma fram úr dimmu
aldanna nokkru eftir að áhrifa hinna nýju laga tekur að gæta í samfé-
laginu. Vandamál kvenna við barnsfeðranir verða æ meira áberandi í
dómskerfinu á þessum árum. Björn Jónsson á Skarðsá (1574-1655)
segir frá í annál sínum árið 1624 að: „Ein kvinna ól barn og kendi
huldumanni, sú kom til alþingis, stóð á sama; það var í Rangárvalla-
sýslu.“ (Annálar 1:218) Ekki eru fleiri heimildir til um mál þessarar
konu (Már Jónsson 1989:38) en hún hefur staðið í svipuðum sporum og
Katla í kvæðinu. Mál hinnar ónefndu „kvinnu“ er því vísbending um
að einhver hluti þjóðarinnar gæti hafa tengt atburði Kötludraums við
raunverulega atburði á fyrri hluta 17. aldar.