Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 39
39
og þeirrar orðræðu sem þar fer fram. Ríkisvaldið ætti ekki að skipta sér
af kristindómsfræðslu að öðru leyti en því að tryggja að fagaðilar sinntu
henni. Það tryggir að kennarar í kristindómsfræðslu í grunn- og mennta-
skólum uppfylli kröfur sem gerðar eru til menntunar og færni opinberra
starfsmanna á þeim vettvangi. Í háskólum eru fög á þessu sviði kennd í
tengslum við guðfræðideildir eða í sérstökum deildum. Í kjölfar fjölmenn-
ingar og fjölbreytileika trúarbragða hefur ríkisvaldið á síðari árum komið
meira að mótun þess sem miðla á í trú- og trúarbragðafræðslu.27 Ástæða
þessara breytinga er fyrst og fremst það sjálfræði í trúmálum sem einkenn-
ir vestræna trúarhugsun. Þessi staða mótar nú einnig veruleika íslensks
samfélags og þar með íslensku þjóðkirkjunnar.
Evangelísk-lútherskir guðfræðingar hvetja flestir til þess að þessi staða
sé virt, m.a. trúfræðingurinn Christoph Schwöbel. Hann segir að fulltrúar
kirkjunnar verði að forðast tvennt í boðun og starfi. Annars vegar er það
sem Schwöbel nefnir villutrú rétttrúnaðarins (þ. die Häresie der Orthodoxie).
Birtingarmynd hennar sé þegar hópur taki sér dómsvald yfir umræðunni.
Þetta sé jafnan gert í krafti sannfæringar og tilheyrandi kenninga um að
túlkunarvaldið á sannleika og réttlæti sé þeirra. Schwöbel segir að þessi til-
hneiging sé sterk, jafnt í trúarlegum sem pólitískum rétttrúnaði nema hvort
tveggja sé. Hins vegar nefnir Schwöbel þá „villu“ þegar ekki er greint á milli
verks Guðs og verks manna (þ. die Häresie der Orthopraxis). Trúin sé þá lögð
að jöfnu við vissa hegðun, uppbyggingu safnaðarins, kirkjustjórn o.s.frv.
Þessu beri að hafna, segir Schwöbel, því að í boðun og starfi kirkjunnar eigi
meginþunginn að hvíla á þátttöku í umræðunni um tilvistarvanda manns-
ins og því að gera grein fyrir afstöðu kristninnar, bæði til einstaklingsins og
samfélagsins.28 Það kemur lítt á óvart að Hjalti Hugason víki að þessu og
heimfæri á íslenskan veruleika með eftirfarandi orðum:
Við endurskoðun stjórnarskrárinnar virðist eðlilegt að fengist sé við
grunngildi samfélagsins. Hér skal litið svo á að mikilvæg gildi í því
sambandi séu til dæmis mannhelgi, samstaða, jafn réttur allra, velferð
öllum til handa í félagslegu, efnahagslegu og andlegu tilliti og „helgi“
náttúrunnar. Auðvelt er að tengja þetta allt við kristin gildi.29
27 Christoph Schwöbel, Gott in Beziehung, bls. 381; Christian Grethlein, „Islamischer
Religionsunterricht in Deutschland“, ZThK 108/2011 [3], bls. 355–380, hér bls.
357, 367–373.
28 Christoph Schwöbel, Gott in Beziehung, bls. 377.
29 Hjalti Hugason, „Þjóðkirkjan og trúfrelsi“, bls. 165–166.
ÞJÓðKIRKJA OG KRÍSA