Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 89
89
og þjóðfrelsið fékk nýja vídd þegar rætt var um trúarjátningar og kirkju-
fyrirkomulag.38
Þórhallur Bjarnarson var farsæll og hægfara umbótamaður og sigldi
milli skers og báru í trúmáladeilum.39 En eftir að heimastjórnin var komin
á tók hann frumkvæðið í uppbyggingu þjóðkirkjunnar undir merkjum
frjálslyndu guðfræðinnar og segja má að hann hafi lagt grunninn að því
kirkjufyrirkomulagi sem íslenska þjóðkirkjan bjó við út 20. öldina. Fyrsta
prestastefnan undir hans biskupsstjórn fór fram á Þingvöllum árið 1909 og
markar hún tímamót í sögu þjóðkirkjunnar því að segja má að þá hafi hún
orðið til í þeim skilningi sem við þekkjum hana.40
Frjálslyndu guðfræðingarnir beittu sér fyrir því að bæði prestar og söfn-
uðir losnuðu undan trúarjátningum evangelísk-lútherskrar kirkju og æ fleiri
tóku undir með gagnrýnisröddum hinnar frjálslyndu stefnu á kverkennsl-
una. Trúfræðin og trúarjátningarnar, sem kjarni kristinnar kenningar og
leiðbeining um trúarlífið, voru í öndvegi kverkennslunnar og lögð áhersla á
utanbókarlærdóm. Í þessari gagnrýni tóku frjálslyndir guðfræðingar undir
með nútímalegum kenningum í uppeldisfræði þar sem slík kennsla var talin
andstæð þörfum og þroska barna. Baráttan við dönsk stjórnvöld tók nú á
sig nýjar myndir. Þannig gekk Jón Helgason forstöðumaður Prestaskólans
svo langt að telja íslensku kirkjuna lausa undan evangelísk-lútherskum
játningum (Ágsborgarjátningunni og Fræðum Lúthers hinum minni) vegna
þess að þær hefðu formlega séð aldrei verið samþykktar á Íslandi.41 Árið
1906 kom út bókin New Theology eftir enska prestinn J.R. Campbell og
gekk hún mjög langt í því að hefja samviskufrelsi einstaklingsins til vegs
í trúarefnum á kostnað hefða, játninga og embætta kirkjustofnunar. Þessi
bók átti mjög upp á pallborðið hjá frjálslyndum guðfræðingum á Íslandi
sem vitnuðu óspart til hennar og notuðu hana við kennslu í guðfræði í
Prestaskólanum og guðfræðideild Háskóla Íslands sem kom til sögunnar
árið 1911 þegar háskólinn var stofnaður. Frjálslynda guðfræðin gekk oft
undir nafninu Nýja guðfræðin og er það nafn sótt í þessa bók. Þórhallur
Bjarnarson, sem var vígður biskup árið 1909, þýddi kafla úr þessari bók og
38 Pétur Pétursson, „Trúarlegar hreyfingar í Reykjavík fyrstu tvo áratugi 20. aldar“,
Saga 18/1980; Jónas Gíslason, „Kirke og samfund i Island 1930–1945“, Kirken,
krisen og krigen, ritstj. I. Montgomery og S.U. Larsen, Bergen: Universitetsforlaget,
1982, bls. 367–386.
39 Óskar Guðmundsson, Brautryðjandinn: ævisaga Þórhalls Bjarnarsonar 1855–1916,
Reykjavík: Skálholtsútgáfan, 2011.
40 Pétur Pétursson, „Þjóðin og þjóðkirkjan“, bls. 27–40.
41 Jón Helgason, „Prestarnir og játningaritin“, Skírnir 83/1909, bls. 193–224.
STOFNUN EðA ANDI