Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Qupperneq 48
48
um málefni líðandi stundar í samhengi þessarar sýnar. Hann hefur skýra
afstöðu til málefna sem brenna á þjóðkirkjunni og starfar m.a. í guðfræði-
hópum sem fjalla um samfélagsmál og þá afstöðu sem þjóðkirkjan á og/eða
ætti að fylgja o.s.frv.
Mein þjóðkirkjunnar er, að mati Hjalta, söguhyggjan og sú embættis-
guðfræði sem hún hefur alið af sér. Það útskýri erfiðleika hennar við að
taka upp lýðræðislegri stjórnarhætti.65 Krísa þjóðkirkjunnar kallist því á
við þann vanda sem stofnanir innan íslensks samfélags glíma almennt við,
m.a. varðandi lýðræðisleg vinnubrögð, gegnsæi, t.d. innan Háskólans, í
mennta- og skólamálum, á heilbrigðis- og fjármálasviði o.s.frv.
Umfjöllun Gunnars Kristjánssonar má lesa sem nánari útfærslu á
þessu.
5. Hugmyndir Gunnars Kristjánssonar um hlutverk kirkjunnar
Það sem þjóðkirkjan á Íslandi á sameiginlegt með trúarstofnunum í vest-
rænni menningu er sjálfræði einstaklingsins í trúmálum. Vægi áreiðanleika
og persónulegs sannleika er nú sett yfir algildiskröfur kenningakerfa og
trúarlærdóma trúarbragða. Trúarbrögð eru ekki lengur virt sem handhafar
sannleikans. Menn hafa losað sig úr forræðishyggju þeirra og meta þau
mun fremur sem farveg trúartjáningar og trúarreynslu. Áherslan færist frá
hlýðni og undirgefni við kenningarkerfi yfir á trúarreynslu einstaklingsins.
Trúin er nú frekar túlkuð sem leið, ferð og ferli, þar sem menn nýta trú-
ararfinn til að spegla líf sitt og reynslu. Trúarstofnanir eru mótsstaðir fólks
sem ræktar sameiginlega trú þar sem einstaklingurinn ber ábyrgð á eigin
trúarlífi.66 Samrýmist það vel kirkjuskilningi siðbótarmanna um að kirkjan
sé samfélag trúaðra.67
Að mati Hjalta Hugasonar ber kirkjunni að bregðast við þessari stöðu
í krafti framtíðarsýnar þjóðkirkju sem tekur skýra afstöðu með þeim húm-
anísku grunngildum sem vestræn menning byggist á, þar sem jákvætt trú-
65 Hjalti Hugason, „Trúarhefð á Norðurlöndum í ljósi kirkjusögunnar“, bls. 76–78;
Hjalti Hugason, „Þjóðkirkja í mótun“, bls. 63–66.
66 Ulrich Beck, Der eigene Gott: Von der Friedensfähigkeit und dem Gewaltpotential der
Religionen, Leipzig: Verlag der Weltreligionen 2008, bls. 172–175; Ulrich Beck,
„Säkularisierung I“, Theologische Realenzyklopädie, 29 bindi, 2006, bls. 603–634, hér
bls. 603–604; Christian Danz, Die Deutung der Religion in der Kultur, Neukirchen-
Vluyn: Neukirchener Verlag, 2008, bls. 18–20; Alain Ehrenberg, Das Unbehagen in
der Gesellschaft, þýsk þýðing Jörg Schröder, Berlín: Schurkamp, 2011, bls. 17–24.
67 Sigurjón Árni Eyjólfsson, Ríki og kirkja, bls. 54–59.
SIGURJÓN ÁRNI EYJÓLFSSON