Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Page 112
112
Hefðarrof og borgaraleg fagurfræði
Nærtækt virðist að líta á gagnrýni kúbó-fútúristanna á manifestóið sem
afturhvarf til þeirrar hugmyndar um sjálfstæði listarinnar sem gjarnan er
haldið fram að framúrstefnan hafi risið gegn.29 Sé aftur á móti litið á yfir-
lýsingar Marinettis sem tilraun til að víkka út sjálfstætt svið listarinnar og
leita leiða til að leggja grunn að nýrri menningu með mállegum gjörn-
ingum sem eiga uppruna sinn í sjálfstæðri orðræðu listarinnar,30 blasir við
forvitnilegur skyldleiki með stefnumarkandi textum kúbó-fútúristanna og
yfirlýsingum ítölsku fútúristanna. Líkt og í ítalska fútúrismanum má hér
greina afdráttarlausa gagnrýni á hefð symbólismans. Í „Almennum smekk
gefið á kjaftinn“ lýsa mælendurnir því ekki aðeins yfir að „henda skuli
Púshkín, Dostojevskij, Tolstoj o.fl. o.fl. fyrir borð á gufuskipi samtím-
ans“, heldur teygir hin fyrirlitlega hefð sig einnig til verka rússnesku sym-
bólistanna: „Allir þessir gaurar á borð við Maxím Gorkij, Kúprin, Blok,
Sologúb, Remízov, Avertsjenko, Tsjornyj, Kúzmín, Búnín o.fl. o.fl. vilja
ekki annað en sumarbústað niður við ána. Með þeim hætti launa örlögin
skröddurum.“31 Gegn borgaralegri fagurfræðihefð symbólismans er stefnt
kraftmiklum skáldskap er muni leiða af sér nýja bókmenntaiðju með því að
hverfa til efnislegra eiginda tungumálsins. Kúbó-fútúristarnir stíga fram
sem „andlit okkar Tíma“32 og ímynd hins nýja manns er hefur létt af sér
oki hefðarinnar – eins og sjá má í texta eftir Khlebnikov frá 1914:
Við höfum komist að því að með því að burðast með þúsund ára lík
(fortíðina) hefur maður tuttugustu aldarinnar kiknað eins og maur
sem burðast með trjábol. Við höfum fært manninum náttúrulegan
29 Umræðuna um að verkefni sögulegu framúrstefnunnar hafi byggst á atlögu að
borgaralegri fagurfræði og hugmyndinni um sjálfstæði listarinnar má rekja aftur til
lykilrits Peters Bürger, Theorie der Avantgarde, frá árinu 1974. Kafli úr því riti hefur
birst í íslenskri þýðingu: Peter Bürger, „Sjálfstæði listarinnar og vandi þess innan
borgaralegs samfélags“, þýð. Benedikt Hjartarson, Ritið 1/2006, bls. 227–250.
30 Sjá nánar Hanno Ehrlicher, Die Kunst der Zerstörung. Gewaltphantasien und Mani-
festationspraktiken europäischer Avantgarden, bls. 11–35.
31 David Búrljúk o.fl., „Almennum smekk gefið á kjaftinn“, þýð. Árni Bergmann,
Yfirlýsingar, bls. 183–184, hér bls. 184; David Búrljúk [Давид Бурлюк] o.fl.,
„Пощечина общественному вкусу“, Die Manifeste und Programmschriften der russ-
ischen Futuristen, bls. 50–51, hér bls. 50.
32 „Almennum smekk gefið á kjaftinn“, bls. 183; „Пощечина общественному вкусу“,
bls. 50.
BENEDIKT HJARTARSON