Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 85
85
Þar sem heittrúarstefnan (píetisminn) lagði áherslu á trúarinnlifun og
persónulega tileinkun trúarsannindanna gat hún ógnað valdinu og skapað
kreppu í stjórnkerfi einveldisins enda hjó þessi stefna víða skörð í þá sam-
fellu sem ríkti um trú og þjóðfélag undir því fyrirkomulagi. Það var áhersl-
an á innra trúarlíf einstaklingsins sem gat skapað þennan usla því undir
niðri hvatti heittrúarstefnan til sjálfræðis og myndugleika einstaklingsins
þegar kom að trú og lífsskoðunum. Fólk tók í leyfisleysi að safnast saman
til að lesa í Biblíunni, biðja bænir og vitna um trú sína utan hins opinbera
helgihalds kirkjunnar og án leyfis frá sóknarpresti. Oft neitaði þetta fólk að
þiggja þjónustu þeirra presta sem það taldi vantrúaða eða óverðuga þjóna
Guðs og þar með var ríkiskirkjunni ógnað enda voru þessar samkomur
víðast hvar bannaðar með lögum (d. konventikelplakatet).27 úr þeim krísum
sem heittrúarstefnan skapaði urðu sums staðar til trúarvakningar, sértrúar-
hópar og kirkjudeildir sem sögðu skilið við ríkiskirkjurnar. Slíkar vakn-
ingar komu fram á sjónarsviðið á Norðurlöndunum á 19. öld, alls staðar
nema á Íslandi.28
Íslendingar kynntust heittrúarstefnunni aðeins í sinni íhaldssömu
mynd í þeim lögum og reglum sem bárust frá hinu konunglega kans ellíi í
Kaupmannahöfn í kjölfar könnunarleiðangurs Ludwigs Harboe rétt fyrir
miðja 18. öld. Tilskipanir um húsaga, húsvitjanir presta og fermingar-
fræðslu hertu mjög á eftirlitshlutverki presta meðal sóknarbarna sinna og
segja má að taumhald kirkjunnar hafi styrkst enn við það að þessar tilskip-
anir komust í gagnið og að sama skapi ítök og afskipti einveldisstjórnarinn-
ar af íslensku þjóðfélagi.29 Þessi sterka staða erlends stjórnvalds í sveitum
landsins snerist þó í höndum þess eftir að sjálfstæðisbaráttan hófst því að
þá voru hin nánu tengsl prestanna við sóknarbörnin virkjuð af leiðtogum
sjálfstæðisbaráttunnar til eflingar þjóðernisvitund og samstöðu um kröfur
Íslendinga á hendur danskra stjórnvalda.
Í raun og veru ríkti formfesta rétttrúnaðarins sem pólitísk hugmynda-
fræði í Danmörku allt til þess er stjórnarskráin var lögtekin þar árið 1849.
Færa má rök fyrir því að á Íslandi hafi þessi pólitíski rammi ríkt þar til
stiftsyfirvöldin voru aflögð og heimastjórn var komið á árið 1904. Hvorki
heittrúarstefna, upplýsing, nýrétttrúnaður né heimatrúboð röskuðu
27 A. Pontoppidan-Thyssen, Väckelse och kyrka i nordiskt perspektiv, Købehavn: G.E.C.
Gad, 1969.
28 Pétur Pétursson, Från väckelse till samfund: Svensk pinstmission på öarna i Nordatl-
anten, Lund: Lunds University Press, 1990, bls. 35.
29 Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, bls. 180–181.
STOFNUN EðA ANDI